Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hálf milljón áhorfa á fjall
Fimmtudagur 4. mars 2021 kl. 21:43

Hálf milljón áhorfa á fjall

Vefmyndavél Víkurfrétta er vinsælasta „sjónvarpsefnið“ í þessari viku. Frá því útsendingar Víkurfrétta hófust fyrr í þessari viku hafa verið næstum hálf milljón áhorfa á streymið þar sem send er út mynd af fjallinu Keili og umhverfi þess. Þar óttast vísindafólk að eldgos brjóti sér leið upp á yfirborðið.

Fyrr í vikunni hófum við útsendingar í gegnum Facebook-síðu Víkurfrétta og á þær horfðu um 142.000 manns.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á miðvikudagsmorgun var ákveðið að færa útsendinguna frá Facebook og yfir á Youtube-rás Sjónvarps Víkurfrétta. Hún fór rólega af stað en þar sem streymið hafði fengið talsverða umfjöllun í öllum helstu landsmiðlum þá varð algjör sprenging í aðsókn þegar fréttir bárust af óróa á skjálftasvæðinu og að gos væri mögulegt. Það var ljóst að landsmenn ætluðu ekki að missa af eldgosi. Vefur Víkurfrétta hrundi í nokkrar mínútur undan álagi en komst fljótt í lag aftur.

Útsending rofnaði í hádeginu í dag vegna álags á tölvu sem annast streymið. Þá höfðu rúmlega 256.000 spilanir átt sér stað á streyminu á Youtube og streymisveitan skráin 186.000 áhorfendur.

Tölvunni var komið í gang að nýju og stendur streymi ennþá yfir þar sem spilanir útsendingu frá Keili eru, þegar þetta er skrifað, orðnar yfir 72.000 talsins.

Víkurfréttir ætla áfram að bjóða upp á streymi frá Reykjanesskaganum á meðan áhugi er fyrir því að horfa. Til hliðar við útsendinguna er spjallborð og þar hafa áhorfendur komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu bókstaflega að horfa á ekki neitt. Þeir vilja hins vegar ekki missa af því að sjá jarðeldinn koma upp, ef svo ólíklega vill til að það fari að gjósa.

Streymið má nálgast hér að neðan.