Halda samstöðufund gegn stóriðju í Helguvík
Boðað hefur verið til samstöðufundar gegn stóriðju í Helguvík næsta föstudag, 31. mars. Boðað er til fundarins á Facebook-síðunni Andstæðingar stóriðju í Helguvík. Í fundarboði kemur fram að kominn sé tími til að íbúar Reykjanesbæjar láti í sér heyra vegna mengunar frá United Silicon og vegna fyrirhugaðrar byggingar kísilverksmiðju Thorsil, einnig í Helguvík.
Fólk er hvatt til að mæta við ráðhús Reykjanesbæjar næsta föstudag á milli klukkan 17 og 18. Þar verður opinn hljóðnemi. Eftir fundinn er hugmyndin að fólk taki rúnt í Helguvík til að sýna samstöðu.
Hafin var starfsemi í verksmiðju United Silicon í Helguvík síðasta haust og upp úr miðjum nóvember fór að berast þaðan reyk- og lyktarmengun yfir hverfi í nágrenninu. Nýlegar mælingar sýndu svo að styrkur arsens í andrúmslofti væri mun meiri en gert var ráð fyrir í umhverfismati. Nú er einn bræðsluofn í verksmiðjunni en áætlanir fyrirtækisins miðast við að þeir verði fjórir innan tíu ára. Umhverfisstofnun hefur sett þær takmarkanir á starfsemina að ofnum verði ekki fjölgað að svo stöddu. Eftirlit Umhverfisstofnunar með starfseminni er það umfangsmesta í sögu stofnunarinnar. Gangi áætlanir Thorsil eftir mun önnur kísilverksmiðja rísa í Helguvík á næstu árum. Áætlað er að í þeirri verksmiðju verði fjórir bræðsluofnar.
Mynd af kísilverksmiðju Thorsil úr matsskýrslu Mannvits. Áætlað er að verksmiðjan rísi á næstu árum í næsta nágrenni við verksmiðju United Silicon.