Atnorth
Atnorth

Fréttir

Háhýsi rís við Keflavíkurhöfn
Miðvikudagur 18. febrúar 2004 kl. 21:15

Háhýsi rís við Keflavíkurhöfn

Fyrsta skóflustungan að nýju sjö íbúðahæða fjölbýlishúsi var tekin um síðustu helgi. Húsið stendur við nýja götu, Pósthússtræti, við pósthúsið í Keflavík. Það er fyrirtækið Meistarahús sem stendur að byggingunni. Áætlað er að húsið verði tilbúið vorið 2005 eða eftir rétt rúmlega ár.
Einar Guðberg Gunnarsson hjá Meistarahúsum sagði í samtali við Víkurfréttir að öll hönnun hússins væri unnin af Suðurnesjamönnum. Gunnar Kr. Ottósson arkitekt hannaði húsið, bæði að utan og innan. Gunnar opnaði á dögunum nýja arkitektastofu GKO arkitekt ehf. að Túngötu 17 í Keflavík. Fyrirtækið sér um skipulag, hönnun og ráðgjöf  bæði innan hús og utan. Suðurnesjamenn hafa tekið vel á móti þessu unga sprotafyrirtæki. Fjölbýlishúsið að Pósthússtræti 1 er fyrsta verkefni arkitektastofunnar á Suðurnesjum en byggingin er frumhönnun sem þýðir mikla hönnunarvinnu í öllum verkþáttum. Að sögn Einars Guðberg er mikill metnaður lagður í alla þætti hönnunar hússins. Verkfræðistofa Suðurnesja hannar burðarvirki og lagnir í húsinu og Rafmiðstöðin hannar raflögn og teikningar.
Pósthússtræti 1 verður með viðhaldsfrírri klæðningu enda er það orðið löngu ljóst að steinsteypa ein og sér er ekki nægjanleg veðurvörn á Íslandi, segir Einar. Það hefur því færst í vöxt að uppsteypt hús séu einangruð og klædd að utan. Hann segir að þessu fylgi augljóslega aukinn kostnaður við byggingu hússins, en það skili sér síðar í minna viðhaldi. Þá er það einnig vaxandi krafa í byggingum að vera með hita í gólfum. Þá þarf að fylgja kröfum vaxandi og stækkandi kynslóða og þá dugar ekkert minna en að vera með dyragátt upp á 215 sm. og lofthæð upp á a.m.k. 270 sm.
Í nýja fjölbýlishúsinu er leyst þekkt vandamál í loftræstingu fjölbýlishúsa. Verkfræðistofa Suðurnesja er að hanna loftræstingu með yfirþrýstingi í stigagöngum en undirþrýstingur verður í sorpgeymslu, sem verður undir bílakjallara. Það kemur í veg fyrir að sorplykt berist upp eftir sorprennum í sameign.
Eins og áður segir þá er húsið sjö íbúðahæðir með fjórum íbúðum á fyrstu sex hæðunum og síðan eru tvær þakíbúðir á 7. hæð. Íbúðirnar eru 3ja og 4ra herbergja frá 100 til 126 fermetrar. Þakíbúðirnar eru 160 fermetrar. Lyfta er frá bílageymslu upp á 7. hæð. Geymslur eru í kjallara, auk sameiginlegrar hjóla- og vagnageymslu. Undir kjallara er síðan sorpgeymsla. Stórar svalir eru við allar íbúðir og á þeim er vatnskrani til að auðvelda þrif.
Einar Guðberg sagði að þessi nýja bygging hafi fengið ótrúlega góð viðbrögð. Jarðvinna er hafin en hún er í höndum Auðuns Pálssonar verktaka. Þá hefur Hjalti Guðmundsson ehf. verið ráðinn til að sjá um uppsteypu hússins. Þá mun Hjalti einangra húsið að utan og klæða með áli. Meistarahús eru hins vegar byggingaraðili og umsýsluverktaki hússins. Að sögn Einars Guðberg eru nokkrir verkþættir við húsbygginguna sem hafa enn ekki farið í útboð, en það mun gerast á næstu misserum. Aðspurður hvers vegna Meistarahús steypi ekki húsið upp sjálft, þá sagði Einar að í sveitarfélaginu væru þrír stórir aðilar með tækjabúnað og steypumót til að sjá um slík verk. Þess vegna væri samið við einn af þeim aðilum til að annast uppsteypuna.
Eigendur Meistarahúsa eru þrír, þeir Sigurþór Stefánsson, Jón Ármann Arnoddsson og Einar Guðberg Gunnarsson.
Bílakjarninn
Bílakjarninn