Háhyrningar undir Stapanum draga að hvalaskoðunarfólk
Háhyrningar hafa gert sig heimkomna undir Stapanum við ytri skorina og virðast vera þar að háma í sig smásíld og kenna ungviðinu að veiða. Háhyrningarnir hafa verið á þessum slóðum síðustu fjóra daga og sýna ekkert fararsnið.
Guðmundur Falk náttúruljósmyndari hefur verið með hvalaskoðunarbát á svæðinu og smellti af meðfylgjandi myndum. Hann segir í samtali við Víkurfréttir að í fyrstu hafi hvalirnir verið fimm en séu núna orðnir sjö talsins.
„Í fyrstu voru þeir fimm en voru orðnir sjö í dag og komu tvær nýjar kýr á svæðið meðan við vorum að skoða þá. Þarna er eitt karldýr með fjórar kýr í dag og tveir kálfar og virðist einn kálfurinn ver nýr og jafnvel hafa fæðst á svæðinu í gær en hann er það ungur og smár,“ segir Guðmundur Falk.
Axel Már Waltersson gerir út hvalaskoðunarbát úr Grófinni og fer reglulegar ferðir á svæðið með fólk að skoða hvalina. Þá hafa hvalaskoðunarbátar einnig verið að koma úr Reykjavík með fólk til að sjá háhyrningana undir Stapanum.
Guðmundur Falk tók myndirnar með fréttinni en í safninu hér að neðan eru nokkrar myndir sem Axel tók sem sýna háhyrningana og hvalaskoðunarbátinn sem Axel gerir út.