Hagnaður Þorbjarnar 84 milljónir króna
Hagnaður Þorbjarnar hf. á fyrri hluta yfirstandandi árs var 83,6 millj. kr., samanborið við 187 millj.kr. á sama tímabili árið á undan. Frá þessu var sagt í DV. Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir skatta var 122 millj. kr. en var 193 millj. fyrstu sex mánuði ársins 1999. Niðurstaðan er ívið lakari en markaðsaðilar höfðu búist við en í skoðanakönnun Viðskiptablaðsins meðal fjármálafyrirtækja var að jafnaði búist við 118 millj. kr. hagnaði hjá Þorbirni og 124 millj. kr. hagnaði af reglulegri starfsemi fyrir skatta.Í frétt frá Þorbirni kemur fram að afkoman var í samræmi við áætlun félagsins fyrir tímabilið. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 344,5 millj. kr., eða 28% af tekjum. Veltufé frá rekstri var 280,3 millj. kr., eða 22,8% af tekjum, samanborið við 248 millj. árið áður. Veltufé frá rekstri Þorbjarnar hefur ekki áður verið hærra á fyrstu sex mánuðum ársins.Eigið fé var kr. 1.154 millj. þann 30.júní sl. og hefur hækkað um kr. 109 millj. frá áramótum. Eiginfjárhlutfall er 24,4% í lok tímabilsins.Afkoma af rekstri frystiskipanna var góð á tímabilinu en aðrir rekstrarþættir skiluðu einnighagnaði, þannig að afkoma var jákvæð af öllum rekstrarþáttum Þorbjarnar hf. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 62 millj. kr. og skiptir þar mestu að gengistap varð af erlendum lánum.Þá hafa afskriftir aukist talsvert frá fyrri hluta árs 1999, vegna fjárfestinga á sl. ári í veiðiheimildum og skipum. Á tímabilinu voru í útgerð þrír flakafrystitogarar, einn ísfisktogari, einn vertíðarbátur, sem var á neta og togveiðum, og línubátur var gerður út í tvo mánuði, en var lagt í lok febrúar. Nótaskip fyrirtækisins var á loðnu og síldveiðum á vegum Samherja hf. Umfang saltfiskvinnslu minnkaði frá sl. ári.Síðari hluti ársins mun markast mjög af fyrirhugaðri sameiningu Fiskaness hf. og Valdimars hf. við félagið, og mun hagræðing, vegna fyrirhugaðrar sameiningar byrja að skila sér á næsta rekstrarári.