Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hagnaður á rekstri Sandgerðisbæjar
Mánudagur 30. maí 2005 kl. 11:22

Hagnaður á rekstri Sandgerðisbæjar

20,4 milljóna króna hagnaður var á rekstri Sandgerðisbæjar árið 2004. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu bæjarins.

Starfsemi Sandgerðisbæjar er skipt í tvo hluta.  Annars vegar A hluta sem er starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum og hins vegar B hluta sem eru fyrirtæki að hálfu eða meirihluta í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Rekstararniðurstaða A-hluta var jákvæð um 46,6 milljónir.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2004 námu 697,4 millj. kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 592,8 millj. kr.  Álagningarhlutfall útsvars var 12,6% en lögbundið hámark þess er 13,03%.  Álagningarhlutfall fasteignagjalda í A-flokki nam 0,36% en lögbundið hámark þess er 0,5% og í B-flokki nam álagningarhlutfallið 1,635% en lögbundið hámark þess er 1,32% auk heimildar sveitarstjórna til að hækka álagningu beggja flokkanna um allt að 25%.

Laun og launatengd gjöld hjá samstæðunni voru 343 millj. kr. og breyting lífeyrisskuldbindinga 16,7 millj. kr.  Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 99.  Skatttekjur sveitafélagsins voru 349 þús. kr. á hvern íbúa en tekjur samtals 424 þús. kr. á hvern íbúa hjá A hlutanum en 499 þús. kr. hjá samstæðunni í heild.

30. apríl 2004 gekk í gildi samningur milli Sandgerðisbæjar og  Eignarhaldsfélagsins Fasteign hf. um kaup og endurleigu á  Grunnskólanum, Íþróttahúsinu og Samkomuhúsinu.  Söluandvirðinu var ráðstafað til að greiða niður skuldir auk þess sem Sandgerðisbær eignaðist hlutafé í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. að fjárhæð 88 millj. kr.

Á árinu 2004 var hafin bygging stjórnsýsluhúss í samvinnu við Búmenn og verður kostnaði Sandgerðisbæjar mætt með sölu eigna.

Í tilkynningunni segir að rekstrarumhverfi Sandgerðishafnar virðist vera að batna, tekjur aukast þar sem hagrætt hefur verið í rekstri. En þar sem höfnin er mjög skuldsett eftir miklar hafnarframkvæmdir á síðustu árum, er ljóst að fjármagnskostnaður mun verða henni mikill baggi næstu árin.

Bæjaryfirvöld segjast afar bjartsýn á uppbygginguna í Sandgerði um þessar mundir, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum og eru viss um að hún muni skila auknum tekjum á næstu árum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024