Hagkvæmara að efla Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll
-Fjármunum er mun betur varið til vegamála en í Hvassahraun, segja framsóknarmenn
Á flokksþing Framsóknarflokksins sem var haldið um síðastliðna helgina lagði Jóhann Friðrik Friðriksson, efsti maður á lista flokksins í Reykjanesbæ í komandi sveitastjórnarkosningum, fram viðbót við ályktun um samgöngumál. Greinir Jóhann Friðrik frá því á Facebook-síðu sinni, þar segir hann:
„Miðstöð innanlandsflugs á Íslandi er í Reykjavík og millilandaflugs á Suðurnesjum. Svæðisskipulag Suðurnesja sem samþykkt hefur verið af öllum sveitarfélögum svæðisins gerir ekki ráð fyrir flugstarfsemi í Hvassahrauni. Hvassahraun liggur á vatnsverndarsvæði á svokölluðu fjarsvæði vatnsverndar fyrir Suðurnes. Við skilgreiningu fjarsvæðis er litið til þátta eins og misgengis og sprungna þar sem gæta þarf sérstakrar varúðar og því eru framkvæmdir þar takmörkum settar. Áætlað er að flugvallarframkvæmdir í Hvassahrauni geti kostað yfir 200 milljarða króna. Fjármunum er mun betur varið til vegamála þar sem stórátaks er þörf.“
Hafnar því Framsóknarflokkurinn öllum áformum um flugvöll í Hvassahrauni og telur slíkar hugmyndir óraunhæfar.