Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hafnfirðingar týndu bíl í snjóskafli á Keflavíkurflugvelli
Þriðjudagur 13. febrúar 2018 kl. 06:00

Hafnfirðingar týndu bíl í snjóskafli á Keflavíkurflugvelli

Ung hjón úr Hafnarfirði urðu fyrir óskemmtilegri reynslu er þau skruppu í helgarferð til London. Þau lögðu bifreið sinni á bílastæði við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli fyrir Lundúnaferðina. Þegar þau komu til landsins á þriðjudeginum sást hvorki tangur né tetur af bílnum og varð ungu hjónunum hverft við sem von er.
 
Það er ástæða til að greina frá því að þetta gerðist í mars árið 1983 eða fyrir 35 árum síðan. Einmitt þessa helgi kom mikið snjóaveður og á staðnum þar sem bílnum hafði verið lagt var kominn stór snjóskafl. Vaknaði því grunur um að bifreiðina væri að finna í skaflinum og var hafist handa við að grafa strax morguninn eftir og fengin grafa til verksins því ekki dugðu nein vettlingatök við moksturinn.
 
Í frétt Víkurfrétta frá þessum tíma segir að bíllinn hafi fundist í skaflinum að nokkurri stund liðinni. Bíllinn reyndist einnig óskemmdur, eftir að hafa verið dúðaður í skaflinum meðan eigendurnir skemmtu sér í London.
 
Myndirnar með fréttinni tók Páll Ketilsson, sem núna 35 árum síðan er enn að mynda snjóskafla fyrir Víkurfréttir.

 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024