Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 20. maí 2002 kl. 15:53

Hafnargötubreyting í Keflavík kostar um 400 milljónir kr.



Endurgerð Hafnargötunnar í Keflavík kostar um 400 milljónir króna samkvæmt nýrri skipulagsáætlun. Þetta var kynnt á fundi Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar í sal Matarlystar sl. föstudag vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hafnargötu.Á fundinum kom m.a. fram að hugmyndin er að skapa rólega umferðargötu sem verður hellulögð með nýjum gangstéttum, trágróðri, bekkjum og fleiru sem þykir gera verslunargötu aðlaðandi. Umferð verður áfram í báðar áttir.
Núverandi skipulagsáætlun gerir ráð fyrir að miðbær Reykjanesbæjar verði við Hafnargötuna og þar verði starfsemi verslana og veitingastaða auk þjónustufyrirtækja. Einnig verði möguleiki á íbúðum á efri hæðum þar sem slíkt á við. Vandamál Hafnargötunnar hafa aðallega verið nálægð við sjó og ónóg bílastæði. Þá eru við Hafnargötuna gömul úr sér gengin hús sem þarf að rífa til að hægt sé að byggja ný. Þetta kallar á fórnarkostnað við nýbyggingar sem húsbyggjendur hafa sett fyrir sig. Samkvæmt nýrri skipulagsáætlun er gert ráð fyrir að færa fjöruna fjær Hafnargötunni með landfyllingu og gera nýjan veg með sjónum (Ægisgötu) sem ætlað er að taka gegnumaskstur og alla þungaumferð af Hafnargötunni. Sjávarrok mun minnka stórlega þar sem sjórinn er fjær og meira skjól myndast með tilkomu nýrri og hærri húsa. Gangstéttar verða breikkaðar og bílastæðum fjölgað. Hiti verður settur í hluta gangstétta í samvinnu við verslunareigendur. Gatan verður öll vistvænni, með gróðri, setbekkjum, lægri lýsingu og listaverkum, öllu verður þó stillt í hóf vegna kostnaðar.
Verið er að leggja síðustu hönd á deiliskipulagsgerðina. Næstu skref verða að gera nákvæma yfirborðshönnun, þe.e landslagshönnun og verkfræðihönnun þ.e. hæðarsetningu og lagnir. Verkið mun kosta lauslega áætlað nálægt 400 milljónum króna, frá hringtorgi við Duus-hús að Víkurbraut. Gert er ráð fyrir að verkið verði unnið á tveimur árum.
Viðar Már Aðalsteinsson, forstöðumaður Umhverfis- og tæknisviðs Reykjanesbæjar og Bjarni Marteinsson, arkitekt kynntu undirbúning framkvæmdarinnar. Einnig greindu starfsmenn Markaðsskrifstofunnar, Ólafur Kjartansson og Helga Sigrún Harðarsdóttir frá norrænu samstarfsverkefni sem er ætlað að styrkja innviði verslunar- og þjónustufyrirtækja með menntunarframboði til starfsmanna og stjórnenda lítilla fyrirtækja auk greininga á starfseminni sem auðveldar stjórnendum að meta stöðuna og bregðast rétt við. Fulltrúar Reykjavíkur kynntu uppbyggingu miðbæjarins í Reykjavík. Viðar Páll Þorgrímsson í Tösku- og hanskabúðinni sagði að svona framkvæmdir væru til góðs en kaupmenn og verslunareigendur yrðu að sýna þolinmæði á meðan þær stæðu yfir.
Á fundinum greindi Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur frá því að fyrirtæki hans hafi lagt fram 100 þús. kr. og Sparisjóðurinn í Keflavík sömu upphæð til stofnunar undirbúningsnefndar til stofnunar samtaka verslunar og þjónustu á Suðurnesjum. Í nefndinni er Steinþór, fulltrúi frá Sparisjóðnum og Reykjanesbæ og svo Róbert Svavarsson frá verslunareigendum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024