Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hafnað um endurgreiðslu farmiða SBK
Fimmtudagur 23. apríl 2015 kl. 16:33

Hafnað um endurgreiðslu farmiða SBK

– Grindavíkurbær seldi ekki farmiða í umboðssölu, segir SBK

Edda Auðardóttir sendi Grindavíkurbæ erindi á dögunum og fór fram á að Grindavíkurbær endurgreiði rútumiða sem seldir voru í umboðssölu fyrir SBK, en ógiltust við gildistöku nýs samgöngukerfis um síðustu áramót. Bæjarráð Grindavík tók erindi Eddu fyrir en getur ekki orðið við erindinu og bendir á að Grindavíkurbær seldi miðana í umboðssölu fyrir SBK og því eðlilegt að beina fyrirspurninni þangað.

Edda sendi Víkurfréttum afrit af bréfaskriftum sínum við bæjarfullrúa í Grindavík. Þar kemur fram að farmiða SBK hafi hún keypt á bæjarskrifstofunum í Grindavík en ekki hafi verið látið vita að miðarnir féllu úr gildi um sl. áramót. „En það gerðist samt þó að mér hafi verið sagt að sveitarfélögin vissu af þessu. Nú kostar meira að taka strætó á höfuðborgarsvæðið og fólk hér í bæ situr uppi með miða SBK fyrir 20-30 þúsund krónur og fást ekki endurgreiddir hjá Grindavíkurbæ. Bæjaryfirvöld í Vogum hafa endurgreitt íbúum sínum SBK miðana og eru líka að kaupa strætómiða sem annars hækkuðu í verði í mars á gamla verðinu,“ segir m.a. í bréfi Eddu til bæjarfulltrúa í Grindavík.

Þóra B. Karlsdóttir, skrifstofustjóri hjá SBK, kannast ekki við að Grindavíkurbær hafi verið að selja farmiða í umboðssölu fyrir SBK. Það geti verið að bærinn hafi keypt farmiða og síðan endurselt þá til bæjarbúa en sú sala hafi ekki verið í umboði SBK. Þóra segir jafnframt að lítið hafi verið um að óskað hafi verið eftir endurgreiðslu á farmiðum. Viðskiptavinir SBK hafi fengið upplýsingar um breytingarnar sem urðu um áramót með góðum fyrirvara. Þá hafi miðarnir verið seldir á það góðum kjörum að þó svo viðskiptavinir hafi átt nokkra miða eftir um áramót, hafi þeir fengið hverja ferð á það góðu verði að þeir hafi ekki tapað á viðskiptunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024