Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hafna tveimur hærri húsum í stað þriggja lægri
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 27. september 2019 kl. 07:05

Hafna tveimur hærri húsum í stað þriggja lægri

Samrýmist ekki stefnu um ásýnd bæjarins

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur hafnað breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnargötu 81, 83 og 85 í Keflavík. Byggingarfélag Gylfa og Gunnars lagði fram tillögu að breyttu deiliskipulagi, húsum verði fækkað úr þremur í tvö, en hækkuð í 8 til 9 hæðir.

Umhverfis- og skipulagsráð segir að erindið samrýmist ekki stefnu um ásýnd bæjarins og erindinu því hafnað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir þremur fimm hæða byggingum á reitnum, sem afmarkast af gömlu saltgeymslunni í norðri og tveimur sjö hæða fjölbýlishúsum í suðri.

Í erindi til skipulagsnefndar Reykjanesbæjar frá eigendum byggingafélagsins og arkitektum segir að þeim finnist þrjú hús á lóðinni standa full þröngt. Milli þeirra eru ráðgerðir 20 metrar og ef horft er til hinna nýju norðanmegin við sem eru allt að 9 hæða, mætti skoða hvort ekki ætti að horfa til að láta hin nýju hús aðeins vera „tvö“ en hærri en fyrirhugað er. Nýja tillagan gerir ráð fyrir 32 metrum á milli húsa og þau fari stighækkandi til norðurs og mæta þar með þeim takti sem er í gangi við sjávarsíðuna. Tillagan gerir ráð fyrir að þau fari frá núverandi 7 hæða húsum yfir í 7 hæðir og inndregna þakhæð og yfir í 8 hæðir og inndregna þakhæð með stórum svölum sem mæti þar með 9 hæða húsinu við Víkurbraut. Tillagan gerir ráð fyrir að fimm íbúðir séu á hverri hæð.

Hönnuðir draga nyrsta húsið frá núverandi saltgeymslu og spyrja hvort nýta mætti það mannvirki sem „leikhús eða tröllahelli“ fremur en að brjóta burt. Tillagan gerir einnig ráð fyrir að færa syðra húsið fjær Pósthússtræti 1.

Heildarfjölda íbúða á hinum nýja reit er haldið sem fyrr í 81 íbúð. Óskað er að fá að hafa 47 bílastæði á jörðu við aðkomu frá Hafnargötu en 100 stæði í bílageymslu með innakstri frá Bakkastíg.

Erindinu var hafnað.