Hafna því að persónuleg óvild hafi ráðið för
Bæjarráð Voga hafnar því að persónuleg óvild í garð Smábátafélagsins í Vogum hafi ráðið ákvörðun nefndar að tilnefna ekki Smábátafélagið í Vogum þegar Magma óskaði eftir uppástungum frá Sveitarfélaginu Vogum um félög í sveitarfélaginu sem Magma gæti veitt styrki.
Magma óskaði á sínum tíma eftir uppástungum frá sveitarfélaginu um félög í sveitarfélaginu sem Magma gæti veitt styrki. Nefnd sem var að störfum við væntanlegan mennta- og menningasjóð sveitarfélagsins tók verkefnið að sér og lagði fram tillögur. Nefndin hafði til hliðsjónar að styrkja þau félög sem standa að íþrótta- og líknarmálum. Nefndin bætti svo við þeim félögum sem höfðu óskað eftir styrkjum í sérstök verkefni. Smábátafélagið í Vogum féll ekki að þessari skilgreiningu nefndarinnar og því stakk nefndin ekki upp á því.
Í nefndinni sátu: Inga Sigrún Atladóttir, Bergur Álfþórsson og Jóngeir Hlinason.
Í afgreiðslu bæjarráðs segir: „Bæjarráð hafnar því að persónuleg óvild í garð Smábátafélagsins í Vogum hafi ráðið ákvörðun nefndarinnar“.