Hafna stækkun hótels við Hafnargötu 57
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar tekur undir andmæli íbúa við deiliskipulagsbreytingu vegna stækkunar Hafnargötu 57 í Keflavík og er henni hafnað. Þetta kemur fram í fundargerð ráðsins en niðurstaða genndarkynningar var þar til umfjöllunar.
Óskað var eftir stækkun á hóteli við Hafnargötu 57, Reykjanesbæ. Sótt er um að byggja tvær hæðir ofan á svokallað C-hús sem er í dag ein hæð sem hýsir ráðstefnu- og fundarsali sem og tíu hótelherbergi en í fyrirhugaðri hækkun á því er áætlað að nýjar hæðir innihaldi hótelherbergi eða fimmtán herbergi hvor hæð ásamt stigahúsi og tengibyggingu við A-hús, eða alls þrjátíu ný herbergi.
Nú eru samtals 118 herbergi í hótelinu sem dreifast á A, B og C-hús en verður eftir stækkun 148 herbergi. Húsið, svokallað C-hús í hótelkjarnanum, yrði því þrjár hæðir.
Bílastæði á lóð eru 48 og í kjallara 46. Þar að auki eru tuttugu bílastæði við hús Hafnargötu 55B samnýtt hótelinu. Alls 115 stæði.
Athugasemdir bárust eftir grenndarkynningu, sem nú er lokið. Andmælt er að bílastæði eru teiknuð á afstöðumynd inn á aðliggjandi lóð við Austurgötu. Einnig er andmælt svo mikilli uppbyggingu í stuttri fjarlægð við aðliggjandi hús við Framnesveg með líklegri innsýn, skuggavarpi og mögulegum sambruna.