Hafna ljósaskiltum við Reykjanesbraut og á Nettóhöllina
Erindi knattspyrnudeildar Keflavíkur um ljósaskilti hefur verið afgreitt frá umhverfis- og skipulagsráði bæjarins. Sótt var um skilti við Baldursgötu 14, á auglýsingaklukku á gatnamótum Hafnargötu og Aðalgötu, við Hringbraut, við Reykjanesbraut ofan Flugvalla og við Þjóðbraut. Einnig á vesturhlið Nettóhallar.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir ljósaskilti á Baldursgötu 14 með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Ráðið samþykkir einnig ljósaskilti á auglýsingaklukku við Hafnargötu með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda.
Umhverfis- og skipulagsráð frestaði erindi um ljósaskilti við knattspyrnuvöll við Sunnubraut og ráðið óskar eftir breyttri útfærslu á því.
Þá hafnar ráðið uppsetningu ljósaskilta við Reykjanesbraut. Stefna um auglýsingaskilti við Reykjanesbraut hefur ekki verið sett. Umhverfis- og skipulagsráð hafnar einnig auglýsingaskilti á Reykjaneshöll en það samræmist ekki samþykktum skilta.