Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hafna kæru vegna Suðurnesjalínu 2
Frá undirritun samninga milli Sveitarfélagsins Voga og Landsnets í sumar.
Föstudagur 29. september 2023 kl. 14:35

Hafna kæru vegna Suðurnesjalínu 2

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við Suðurnesjalínu 2 til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 um að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála barst bréf dagsettt 7. september 2023 þar sem Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Hraunavinir og Landvernd kæra þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 19. september 2023.

Málavextir og rök: Á fundi skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga hinn 29. júní 2023 var tekin fyrir umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins. Lagði nefndin til við sveitarstjórn að fallist yrði á umsókn félagsins samkvæmt leið C með vísan til rökstuðnings og þeirra skilyrða sem fram kæmi í 5. kafla í tillögu að greinargerð sveitarstjórnar. Næsta dag samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar og fól skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi.

Kærendur benda á að framkvæmdir séu yfirvofandi en áætlað sé að hefja framkvæmdir á þessu ári samkvæmt drögum að áætlun um framkvæmdaverk 2024–2026, sbr. tillögu að kerfisáætlun Landsnets 2023–2032. Sveitarfélagið hafi ekki rökstutt með fullnægjandi hætti ákvörðun sína um að veita framkvæmdaleyfi þvert á niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 22. apríl 2020. Ekkert deiliskipulag sé til af svæðinu og engin grenndarkynning hafi farið fram. Þá hafi sveitarfélagið ekki gengið úr skugga um að öll fyrirliggjandi leyfi fyrir framkvæmdinni séu á réttum rökum reist. Með vísan til þeirra málsástæðna sé þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan mál þetta sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Leyfishafi bendir á að í tilvísuðum drögum að áætlun um framkvæmdarverk segi að gert sé ráð fyrir að hefja útboð verkþátta og framkvæmdir í kjölfar þess að tilskilin leyfi liggi fyrir. Þótt þau leyfi liggi nú fyrir hafi leyfishafi ekki náð samkomulagi um endurgjald fyrir landnot á allri línuleið Suðurnesjalínu 2 í Sveitarfélaginu Vogum, en framkvæmdir geti ekki hafist fyrr en það liggi fyrir eða eignarnám hafi farið fram, sbr. 21. gr. raforkulaga nr. 65/20023. Ekki liggi fyrir hvenær þessum þætti ljúki. Ef allt gangi að óskum verði hægt að fara í útboð í desember 2023 til febrúar 2024 og framkvæmdir geti þá hafist sumarið 2024. Séu því framkvæmdirnar séu ekki yfirvofandi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011 og endanlegur úrskurður ætti að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjist.

Sveitarfélagið Vogar bendir á að ekkert framkvæmdaleyfi hafi enn verið gefið út. Engar forsendur séu því til að stöðva framkvæmdir. Stöðvun framkvæmda á grundvelli 5. gr. laga nr. 130/2011 sé þar að auki undantekningarheimild og beri að skýra ákvæðið þröngt. Réttaráhrif stöðvunar séu jafn afdrifarík og sambærileg og áhrif lögbanns, en við beitingu stöðvunarúrræðisins sé hins vegar ekki krafist tryggingar af hálfu þess aðila er fari fram á stöðvun eins og gert sé þegar lögbanni sé beitt. Þrátt fyrir það séu mjög þröngar skorður settar við beitingu lögbanns, sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Samkvæmt upplýsingum frá Sveitarfélaginu Vogum hefur ekki verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Þá liggur einnig fyrir samkvæmt upplýsingum frá leyfishafa að ekki hefur verið samið um endurgjald fyrir landnot á allri línuleið Suðurnesjalínu 2 í sveitarfélaginu, en skv. 21. gr. raforkulaga nr. 65/2003 má ekki leggja raflínur eða reisa önnur mannvirki á grundvelli leyfa samkvæmt lögunum fyrr en náðst hefur samkomulag um endurgjald fyrir landnot eða nýtingu auðlindar eða eignarnám hafi farið fram og umráðataka samkvæmt því. Jafnframt hefur leyfishafi upplýst nefndina um að stefnt sé að útboði fram­kvæmdanna í desember 2023 til febrúar 2024 og að framkvæmdir geti þá hafist sumarið 2024.

Gera verður ráð fyrir að meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni verði lokið innan lögbundins málsmeðferðartíma, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, eða í öllu falli áður en framkvæmdir hefjast. Í ljósi framangreinds verður ekki talið að framkvæmdir séu yfirvofandi og því ekki knýjandi þörf til að grípa til svo íþyngjandi úrræðis sem stöðvun framkvæmda er þar til úrskurður gengur í kærumálinu. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 um að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins.