Hafna byggingu 22 gistihúsa á Garðskaga
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs hefur staðfest afgreiðslu skipulags- og bygginganefndar Garðs þar sem lagst er gegn byggingu 22 gistihúsa á tveimur lóðum við Norðurljósaveg á Garðskaga.
Norðurljós gestahús ehf. í samstarfi við Völundarhús ehf. óskuðu eftir að fá úthlutað lóðunum við Norðurljósaveg 4 og 6 til að reisa á þeim 22 gistihús til útleigu fyrir ferðamenn.
Nefndin tók jákvætt í úthlutun lóðanna en hafnaði hins vegar þeim hugmyndum um uppbyggingu sem lagðar eru fram með erindinu.
„Ásýnd þeirrar uppbyggingar sem lögð er til, samræmist frístundabyggð frekar en nokkru öðru, en lóðirnar eru ekki skipulagðar sem frístundabyggð, heldur hugsaðar undir uppbyggingu stærri og varanlegri mannvirkja sem uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um heilsárshús. Þá er nýtingarhlutfall lóðanna skv. tillögu engan veginn viðunandi (0,05-0,06) og stendur þ.a.l. ekki undir kostnaði vegna uppbyggingar innviða og umgjarðar vegna lóðanna,“ segir í afgreiðslu nefndarinnar.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs samþykkti svo afgreiðslu nefndarinnar með sex atkvæðum en Gísli Heiðarsson sat hjá við afgreiðsluna. Hann er að byggja hótel á næstu lóð við þær sem sótt var um undir gistihúsin.