Hafist handa við byggingu Stálpípuverksmiðju innan 5 mánaða
Gert er ráð fyrir að hafist verði handa við byggingu stálpípuverksmiðju í Helguvík innan 4 til 5 mánaða. Bandaríski stálpípuframleiðandinn International Pipe and tube er á lokastigum fjármögnunar vegna byggingar verksmiðjunnar. Viðræður við stóran evrópskan banka hafa staðið yfir um fjármögnun hluta byggingakostnaðar og að bankinn leiði lánsfjármögnun fyrirtækisins vegna framkvæmdanna.
Nýlega ræddu forsvarsmenn IPT við Íslenskar bankastofnanir um fjármögnun og voru svörin jákvæð í þeim viðræðum. Í framhaldi af því var rætt við evrópska bankann og reyndist niðurstaða þeirra viðræðna mjög jákvæð. Skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu vegna fjármögnunarinnar og í framhaldi af því verður skrifað undir fjármögnunarsamning. Gert er ráð fyrir að unnið verði að gerð samningsins næstu 4 til 5 mánuðina og þegar þeirri vinnu lýkur geta framkvæmdir hafist.
Suður-Kóreska fyrirtækið Daewoo er yfirverktaki byggingu verksmiðjunnar og samhliða samningnum við bankann segjast forsvarsmenn IPT vera að ganga frá samningum við Daewoo. Innan fyrirtækisins hefur verði unnið að tæknilegum lausnum hvað varðar byggingu verksmiðjunnar og er undirbúningur innan Daewoo kominn lengra en upphaflega var áætlað.
Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ segist vera ánægður með stöðu mála vegna Stálpípuverksmiðjunnar. „Þetta lítur allt mjög vel út, en við höfum áður sagt að við munum ekki skera neina rjómatertu fyrr en verkefnið er alfarið í höfn,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir.
Myndin: Lóð fyrirhugaðrar Stálpípuverksmiðju í Helguvík er tilbúin. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.