Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hafði niðrandi orð um Gamla bæinn - ruku á dyr á hitafundi
Föstudagur 27. janúar 2017 kl. 13:48

Hafði niðrandi orð um Gamla bæinn - ruku á dyr á hitafundi

Umdeildur reitur við Hafnargötu 12

Í gær fór fram opinn kynningarfundur í Bíósal Duus húsa þar sem framkvæmdaraðilar og eigendur SBK reitsins að Hafnargötu 12 kynntu áformaða byggingu á svæðinu, en til stendur að reisa þar þriggja hæða íbúðablokk með 77 íbúðum og bílastæðakjallara. Mikill hiti var á fundinum en íbúar létu vel í sér heyra og virtust ósáttir við þessi áform. Upp úr sauð þegar arkitekt sem sá um kynningu á verkefninu fyrir hönd eigenda tjáði gestum að honum þætti Gamli bærinn í Keflavík ekkert sérstök bæjarprýði - þannig að helmingur fundargesta rauk á dyr í kjölfarið.

Um 20 íbúar voru á fundinum, þ.á.m. íbúar Túngötu sem búa beint fyrir aftan lóðina sem stendur til að byggja á. Eftir kynningu var opnað fyrir spurningar en íbúar virtust bálreiðir með tillöguna og allir sem tóku til máls lögðust harkalega gegn henni. Mikill hiti var í fundargestum en það má með sanni segja að upp úr hafi soðið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er um að ræða íbúðasvæði. Deilisskipulagsbreytingar á lóðinni eru í auglýsingaferli en fjarlægja á núverandi byggingar sem standa á reitnum.

Sveinn Magni Jensson býr á Túngötu ásamt því að reka þar gistiheimili. „Þessar byggingar eru næstum því inni í garði hjá mér og skyggja verulega á mína lóð. Er ég að fara að fá þarna rúmlega 70 íbúðir beint fyrir ofan svefnherbergisgluggann minn og íbúar þeirra horfa bara inn á mig? Ég var einn af þeim sem labbaði út eftir ummælin um gamla bæinn, það var verið að gera lítið úr heimamönnum sem dást að gamla bænum og þykir vænt um hann; þeim sem vilja efla hann til hins betra og varðveita þau menningarlegu gildi sem hann hefur,“ sagði Sveinn eftir fundinn.

Tillagan er aðgengileg á heimasíðu Reykjanesbæjar eða með því að smella hér. Hún er einnig til sýnis á skrifstofu Reykjanesbæjar ásamt fylgigögnum frá og með 22. desember 2016 til 2. febrúar 2017. Íbúum er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna en rennur hún út 2. febrúar.