Hafði jafn gaman í göngunni með grímu
„Það eina sem við hjá Andstæðingum stóriðju í Helguvík óskuðum eftir var að fólk bæri grímur í andliti, eða allavega setti þær um hálsinn á sér svo hún sæist, engin læti eða mótmælaspjöld,“ segir Einar M Atlason, formaður ASH í færslu sinni í Facebook hópnum „Reykjanesbær - Gerum góðan bæ betri“.
Mikil umræða skapaðist í kringum hugmynd samtakanna um að þátttakendur árgangagöngunnar á Ljósanótt myndu ganga niður Hafnargötuna með grímu til að mótmæla starfsemi kísilvers United Silicon í Helguvík. „Ég hafði alveg jafn gaman í göngunni þó ég bæri grímu fyrir vitum. Það vantaði allan vilja bæjarbúa til að taka þátt í verkefninu. Þetta var stórt tækifæri,“ segir Einar og bætir því við að hann vænti þess að þeir sem töluðu gegn hugmyndinni taki þátt í mótmælum samtakanna fljótlega og sýni samstöðu.