Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hafa safnað tæpum 2,2 tonnum af rusli úr fjörum á Reykjanesskaga
Miðvikudagur 28. júní 2017 kl. 16:36

Hafa safnað tæpum 2,2 tonnum af rusli úr fjörum á Reykjanesskaga

Alls hafa safnast tæp 2,2 tonn af rusli á þeim fjórum klukkustundum sem búið er að verja í tiltektina úr fjörum Reykjanesskaga. Strandhreinsunarátakið er samstarfsverkefni Nettó, Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi og Bláa hersins en það hófst í byrjun síðasta mánaðar og gengið vonum framar.

Fyrsta holl hreinsunarinnar fór fram í Grindavík í byrjun júnímánaðar þar sem safnaðist um eitt 1,5 tonn af rusli. Þar tóku sjálfboðaliðar frá Ungmennafélagi Grindavíkur til hendinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Síðastliðinn miðvikudag var gengið um fjöruna við Garðskagavita þar sem stelpur úr 4. flokki Reynis og Víðis söfnuðu 660 kílóum af rusli. Alls tekur hver hreinsun tvær klukkustundir.

Tómas J. Knútsson, sem fer fyrir Bláa hernum, segir það með ólíkindum að svo mikið rusl hafi safnast á svæðinu enda hafi hann sjálfur nýverið tínt slatta og kíki gjarnan þarna við. Þá segir hann að það sé svo sannarlega þörf fyrir átak sem þetta og að hann sé þegar farinn að búa sig undir næstu hreinsun, sem fram fer í Sandgerði í júlí.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, sem reka Nettó, segist hæstánægður með gang mála. „Við viljum leggja okkar að mörkum og fáum til liðs við okkur fólk frá hverju bæjarfélagi fyrir sig til að hjálpa okkur í þessu verkefni. Það er ekki annað hægt en að hrósa unga fólkinu af svæðinu sem gefur ekkert eftir. Okkur hefur gengið afar vel að safna rusli og erum bjartsýn á að þetta haldi svona áfram, enda rétt að byrja,“ segir hann. Gunnar Egill bendir jafnframt á að það sé vissulega hvatning fyrir Nettó til að halda áfram vel á spöðunum í sinni umhverfisvernd, en eitt markmið Nettó fyrir árið í ár er að draga verulega úr sorpmagni, eða um 100 tonn.