Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hafa óskað eftir gögnum frá Ust um tímasetningar kvartana
Frá starfsemi í verksmiðju United Silicon. Mynd af vefnum silicon.is.
Fimmtudagur 5. janúar 2017 kl. 11:23

Hafa óskað eftir gögnum frá Ust um tímasetningar kvartana

Sex kvartanir vegna lyktar frá kísilveri United Silicon báust Umhverfisstofnun á gamlársdag og tvær þriðjudaginn 2. janúar. Á gamlársdag var norðanátt og voru íbúar í Reykjanesbæ sem tjáðu sig á samfélagsmiðlum um lyktarmengun sem þeir töldu berast frá kísilverinu. Að sögn Kristleifs Andréssonar, stjórnanda öryggis- og umhverfismála hjá kísilveri United Silicon, var slökkt á ofni kísilversins á miðnætti á mánudag og kveikt aftur klukkan 20:00 á þriðjudagskvöld. Aðspurður um lyktina sem íbúar hafa fundið undanfarið kveðst Kristleifur sjálfur ekki hafa fundið hana, ef frá er skilinn stuttur tími á þriðjudagskvöld þegar nýbúið var að setja ofninn aftur í gang. „Lyktin virðist helst koma upp þegar ofninn er ræstur aftur eftir stopp. Við höfum óskað eftir gögnum frá Umhverfisstofnun þar sem fram komi tímasetningar kvartana um lykt. Þannig getum við borið okkar gögn saman við tímasetningu kvartana og með því móti séð hvað veldur. Að sjálfsögðu eru þessi gögn ekki tengd við nöfn, aðeins dagsetningu og tíma kvartana,“ segir Kristleifur.

Slökkt var á ofni kísilversins á miðnætti á mánudagskvöld. Ástæðan var sú að lögn í reykhreinsivirki stíflaðist og sló því út. Við það slökknar sjálfkrafa á ofni verksmiðjunnar. Ekki er hægt að ræsa ofninn aftur nema reykhreinsivirkið virki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kísilrykið er söluafurð

Myndband sem birt var á vef Stundarinnar  í vikunni sýnir efni sem líkist reyk leggja frá kísilverinu. Að sögn Kristleifs opnaðist lúga í því tilfelli og út slapp kísilryk. „Rykið er mjög fínt og þarf afar lítið magn af því til að það sýnist mikill mökkur. Lúgunni var lokað strax aftur. Þetta gerðist í tengslum við losun stíflunar í reykhreinsivirkinu. Kísilrykið er söluvara og þess vegna viljum við alls ekki tapa neinu af því. Kísilrykið er ekki eitrað eða hættulegt heilsu manna. Þetta er ekki sama ryk og getur valdið steinlunga (silicosis) við langvarandi innöndun,“ segir hann.

Ekki alltaf hægt að hætta um leið og bilun verður
Á vef Stundarinnar var einnig birt myndband þar sem sjá mátti mikinn reyk inni í verksmiðjunni. Aðspurður að því hvort slíkt magn af reyk sé eðlilegt í starfsemi verksmiðjunnar segir Kristleifur svo ekki vera. „Í þessu tilviki hafði hringekja, sem við notum til að hella kísli í bilað. Yfir henni er afsog sem tekur við allri reykmengun. Við bilunina var brugðið á það ráð að hella kísli í svokallaða sæng. Sængursteypa fer þannig fram að útbúið er beð úr fínefnum og bráðnum málminum hellt þar í til kælingar og storknunar. Þar er ekki afsogsbúnaður og þar með verður talsverð reykmengun meðan á sængursteypunni stendur. Þá eiga allir að vera með rykgrímur svo menn andi reyknum ekki að sér.“ Kristleifur segir aðra aðferð vera í þróun, það er aðferð til að nota þegar hringekjan bilar. Þá er kísli hellt í kassa sem er undir afsogi svo ekki fari reykur um alla verksmiðju. Hringekjan hefur bilað nokkrum sinnum og hefur þá verið gripið til sængursteypu með tilheyrandi reyk. Kristleifur segir ekki alltaf mögulegt að hætta aftöppun af ofninum um leið og bilun komi upp í hringekjunni. Upp geti komið tilvik þar sem tappa þurfi af ofninum til að minnka þrýsting í honum.