Hafa misst tökin í Hitaveitu Suðurnesja
Minnihluti A-lista lagði fram bókun á bæjarstjórnarfundinum í gær þar sem hann segir Sjálfsstæðismenn hafa misst tökin í Hitaveitu Suðurnesja. Þá leggur A-listinn áherslu á að HS verði aftur í meirahlutaeign samfélagsins, eins og það er orðað í bókuninni en hún er svohljóðandi:
Hitaveita Suðurnesja aftur í meirihlutaeign samfélagsins.
Nú er ljóst að viðvaranir og varnarorð forystumanna A-listans í Reykjanesbæ um með hvaða hætti farið er með eignarhluti í Hitaveitu Suðurnesja reyndust eiga fullan rétt á sér. Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ hafa misst tökin í Hitaveitu Suðurnesja.
Ljóst er að nú er illt í efni fyrir okkur Suðurnesjamenn. Mörgum spurningum er ósvarað hvað varðar almannahagsmuni íbúa á svæðinu, eignarhald á auðlindum og nýtingaréttur er í uppnámi. Við höfum misst stjórn og sitjum ekki lengur í bílstjórasætinu, við erum í raun komin upp á náð og miskunn peningamanna sem vilja ávaxa sitt pund með ofsahraða eins og dæmin sanna.
A-listinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar leggur enn og aftur áherslu á að Hitaveita Suðurnesja verði í samfélagslegri eign. Því leggur A-listinn enn og aftur áherslu á að forkaupsréttur Reykjanesbæjar á hlut Orkuveitu Reykjavíkur verði nýttur, komi til þess að hann verði lagður inn í REI.
Mynd: Frá hitafundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær. HS, GGE/REI - umræðan tók rúmlega tvær klukkustundir. VF-mynd: elg