Hafa gefist upp á ítrekuðum sóðaskap
- loka jarðvegstipp með læstu hliði
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa gefist upp á ítrekuðum sóðaskap þeirra sem virða ekki reglur sem gilda á jarðvegstipp á Stapanum. Þrátt fyrir að eingöngu megi losa þar ómengaðan jarðveg eins og grjót, möl, sand, mold og leir, steypubrot, hellur og steypt rör og garðaúrgang eins og túnþökur, trjágreinar, gras og matjurta- og blómaleyfar, þá eru alltof margir sem fara þangað með bílfarma af rusli ýmis konar og henda á svæðinu.
Heilu eldhúsinnréttingarnar og sófasettin hafa endað í tippinum sem og annað sorp sem síðan fýkur um allan Stapann og yfir byggðina í Innri Njarðvík.
Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, segir að nú sé nóg komið. Nú er ekki lengur hægt að hafa svæðið opið og því hefur verið ákveðið að setja upp læst hlið að svæðinu. Verktakar sem þurfa að losna við jarðvegsútgang þurfa því að nálgast lykil að hliðinu hjá Reykjanesbæ.
Guðlaugur Helgi segir að hliðið verði sett upp á næstu dögum og að þá þurfi jafnframt að hreinsa svæðið af því rusli sem þar hefur safnast upp. Bærinn hefur þurft að leggja í mikinn kostnað við hreinsun og hefur fjúkandi rusl skapað íbúum í Innri Njarðvík óþægindum.
Mikið magn af rusli er á jarðvegstippnum. Þetta rusl á heima í Kölku en ekki í náttúrunni á Stapanum. VF-myndir: Hilmar Bragi