Hafa fullan hug á að ljúka við álverið
Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls segir að enn sé fullur vilji á að halda áfram með Helguvíkurverkefnið um leið og búið sé að ná samningum um orku.
Ragnar segir í viðtali við Morgunblaðið að tilvitnun Viðskiptablaðsins í fund hjá eiganda Century Aluminium sem er móðurfélag Norðuráls, væri ekki góð heimild því endurritið sem blaðið hafi undir höndum sé illa unnið og innihaldi villur.
Ragnar segir að vissulega hafi það verið vonbrigði að HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur hafi ekki getað staðið við þá orkuöflun sem um hafi verið samið. Því hafi verið leitað til annarra orkufyrirtækja, þar á meðal Landsvirkjun. Ragnar sagði framhaldið m.a. ráðast af niðurstöðu Rammaáætlunar. Ef dæmið ætti að ganga upp yrðu aðrir aðilar að koma að málinu. „Það gæti orðið lykillinn að því að leysa öll þessi mál ef allir taka höndum saman og reyna að koma verkefninu áfram,“ sagði Ragnar við Morgunblaðið.
Varðandi orð forstjóra Century um „sokkinn kostnað“ vegna framkvæmda sem þegar hafa farið fram í Helguvík, sagði Ragnar þau þýða að félagið væri reiðubúið að líta framhjá þeim fjármunum sem þegar hafa verið lagir í verkefnið í Helguvík og líta frekar fram á við þegar mat yrði lagt á raforkuverð. Forstjóri Century væri enn jákvæður í garð verkefnisins ef það væri hægt að útvega orku.