Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hafa beðið í fimm ár eftir leyfi til rannsókna
Fimmtudagur 2. júní 2005 kl. 10:49

Hafa beðið í fimm ár eftir leyfi til rannsókna

Hitaveita Suðurnesja hefur beðið í fimm ár eftir rannsóknarleyfi til borunar á Brennisteinsfjöllum en án rannsóknarleyfisins fæst enginn orka fyrir hugsanlegt álver í Helguvík. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að kerfið sem ósk um rannsóknarleyfi færi í gegnum væri orðin hálfgerður brandari.

„Allir tafir má rekja til umhverfisráðuneytisins og undirstofnunum þess en við verðum að fá þessi leyfi því við sköffum ekki rafmagn án þess að fá fleiri svæði,“ sagði Júlíus.

Það þykir ljóst að ef leyfisveiting fyrir önnur svæði tekur jafnlangan tíma og leyfið fyrir Brennisteinsfjöll þá mun álver í Helguvík ekki rísa á næstu árum jafnvel áratugum. Júlíus Jónsson neitar þó að trúa því að svona stjórnsýsla geti viðgengist. „Það getur ekki gerst því þá er stjórnkerfið bara óvirkt ef þetta gengur svona fyrir sig,“ sagði Júlíus og bætti því við að þetta sé ekki eina dæmið sem þeir hafa um svona vinnubrögð. „Þetta er samt sem áður fáránlegasta atvikið og vonandi helst það sem slíkt.“

Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri hjá Umhverfisráðuneytinu, sagði í samtali við Víkurfréttir að tafirnar liggi hjá Hitaveitu Suðurnesja. „Þetta á ekki að þurfa að taka langan tíma nema menn komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi frekari rannsóknir svo hægt sé að mæla með viðkomandi framkvæmd,“ sagði Ingimar og bætti því við að þetta byggist allt á þeim gögnum sem þeir hafa undir höndum. Að sögn Ingimars má vænta niðurstöðu í næsta mánuði.

Júlíus Jónsson sagði í samtali við Víkurfréttir að þegar umhverfisstofnun hafði lagst alfarið gegn þessari umsókn var beðið um frekari gögn en það var gert u.þ.b. 3 árum eftir að umsóknin barst þeim upphaflega. Að sögn Júlíusar voru gögnin umfangsmikil og tók það töluverðan tíma að vinna þau gögn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024