Hafa áhyggjur af mönnun leikskóla
Hvatt er til þess að stofnaður verði starfshópur á vegum Reykjanesbæjar til að skoða starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum sveitarfélagsins. Stjórnendur leikskólanna, sem sendu Menntaráði erindi, lýsa yfir áhyggjum af því að í ljósi fjölgunar leikskóla og stækkunar annarra skóla sé hætt við að ekki verði hægt að fullmanna alla skóla bæjarins í haust.
Menntaráð leggur til að starfshópur verði myndaður í kjölfarið til að skoða starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum Reykjanesbæjar nánar til að mæta þeim áhyggjum sem leikskólastjórnendur lýsa yfir, koma með tillögur til úrbóta og kostnaðarmat þeirra.
Lagt er til að í hópnum verði helstu aðilar leikskólastarfsins í Reykjanesbæ sem og fulltrúi foreldra.