Hafa áhyggjur af ljósleysi í Heiðarenda
Íbúar og vegfarendur í Heiðarenda í Keflavík hafa áhyggjur af ljósleysi í götunni. Þar er allt tjörusvart frá því sólin sest síðdegis og þar til hún kemur aftur upp að morgni. Meðfylgjandi skeyti barst Víkurfréttum nú í morgun:
„Nú í morgun lenti ég í því tvívegis að næstum keyra niður börn á leið í skólann þar sem það er slökkt á ljósastaurum við Heiðarenda í Keflavík. Það er slökkt á staur sem lýsir upp gangbraut sem krakkar nota til að fara yfir götuna á leið sinni í skólann. Það er kolsvarta myrkur þarna og koma bílar á ágætis ferð þarna um. Ég var þarna á ferð núna um kl. 8 og það var svarta myrkur í öllu hverfinu. Spurning hvort það eigi nú allanvega ekki að hafa kveikt á staurum þar sem börn þurfa að nota gangbrautir“.
Þessu er hér með komið á framfæri við yfirvöld ásamt myndum sem ljósmyndari Víkurfrétta tók um kl. 8:30 í morgun.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Aðeins farið að birta til í götunni. Ekki spennandi aðstæður fyrir gangandi vegfarendur.