Hafa áhyggjur af hallarekstri Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Bæjarráð Sandgerðisbæjar lýsir yfir áhyggjum af fyrirséðum hallarekstri á Fjölbrautaskóla Suðurnesja á árinu 2013 vegna ónógra fjárframlaga. Að mati bæjarráðsins er mikilvægt að þjónusta skólans við námsmenn á Suðurnesjum skerðist ekki.
Tryggja þarf að fjárframlög til FS verði í samræmi við framlög til sambærilegra skóla annars staðar á landinu, þannig að Suðurnesjamenn njóti sömu þjónustu og aðrir landshlutar, segir í fundargerð bæjarráðsins þar sem tekin var fyrir fundargerð stjórnar Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fjárhagsstaða skólans og útlitið næsta ár.