Hafa áhuga á að bjóða upp á beint flug frá Íslandi til Kína
Í desember verður farin fyrsta hópferð íslendinga til Kína á vegum Jens Beining Jia, en hann rekur einnig veitingastaðinn Jia Jia í Reykjanesbæ. Jens rekur ferðaþjónustu fyrir kínverja sem vilja ferðast til Íslands og frá því í júlí hefur hann tekið á móti 350 manns frá Kína. Jens segir að vel hafi gengið og hann finni fyrir áhuga kínverja á Íslandi. „Ég býst við 200-300% aukningu á næsta ári, en ég finn fyrir miklum áhuga.“ Jens hefur á síðustu mánuðum unnið að undirbúningi að ferðalögum Íslendinga til Kína og er hann í samstarfi við eina af 10 stærstu ferðaskrifstofum Kína. „Við náðum samningum við kínverska flugfélagið Air China og þeir eru spenntir fyrir þessu verkefni.“ Ef vel gengur þá segir Jens að forsvarsmenn Air China hafi sýnt því áhuga að bjóða upp á beint flug frá Íslandi til Kína. Jens verður fararstjóri í fyrstu ferðinni til Kína sem farin verður 7. desember en um er að ræða 9 daga ferð þar sem ferðast verður til 6 vinsælla borga í Kína, m.a. Peking, Xian, Nanjing og Shangai. Jens segir að verðið sé gott, en innifalið í verðinu er morgunmatur, hádegismatur og fjölbreyttar skoðunarferðir á hverjum degi.
VF-ljósmynd/JKK: Jens segir að ef samstarf við Air China gangi vel þá hafi forsvarsmenn flugfélagsins áhuga á beinu flugi frá Íslandi til Kína.