Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hættur sem stjórnarformaður BS og segir sig úr Sjálfstæðisflokknum
Fimmtudagur 13. nóvember 2008 kl. 09:30

Hættur sem stjórnarformaður BS og segir sig úr Sjálfstæðisflokknum

Sigurvin Guðfinnsson  hefur sagt af sér sem stjórnarformaður Brunavarna Suðurnesja. Jafnframt hefur hann sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum. Hann var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og er þar með hættur trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.
Aðspurður segir Sigurvin ástæðuna fyrst og fremst ósætti hans við það hvernig flokkurinn hafi haldið á málum eftir hrun bankanna. Ekkert hafi gerst síðan neyðarlögin voru sett í byrjun október.

„Ég er ósáttur við það hvernig efnhagsmálin hafa þróast og hvernig flokkurinn hefur staðið sig með tilliti til fólksins í landinu. Miðað við þann tíma sem liðinn er frá því neyðarlögin voru sett sýnist mér að menn ætli ekki að axla neina ábyrgð í þessum málum. Ég hef alltaf litið svo á að ef menn eru í pólitík eigi þeir að vera trúir sinni sannfæringu og í þessu tilviki er ég það,“ sagði Sigurvin í samtali við VF.

Aðspurður segist Sigurvin skilja sáttur við samstarfsfólk sitt í stjórn BS og Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ. Í því samstarfi hafi ekki verið hnökrar heldur beinist óánægja hans fyrst og fremst að forystu flokksins.
„Ég er bara einn af fjöldanum sem mótmælir því hvernig hlutarnir hafa gengið fyrir sig og þeirri spillingu sem hefur þrifist í kerfinu. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn borið mikla ábyrgð í því efni. Það er eitthvað sem menn verða að horfast í augu við og axla ábyrgð á. Mér finnst menn ekki hafa gert það,“ segir Sigurvin.

Hann segist hafa íhugað ákvörðun sína vandlega síðustu vikur og taki hana að vel ígrunduðu máli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/elg: Sigurvin Guðfinnsson.