Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hættulegur gaddavír á útivistarsvæði
Laugardagur 12. apríl 2003 kl. 23:19

Hættulegur gaddavír á útivistarsvæði

Útivistar- og skógræktarsvæðið að Háabjalla hefur hlotið talsverða athygli í dag og síðustu daga. Nokkrir dagar eru síðan Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra var þarna á ferð og veitti fé til skógræktarinnar á svæðinu. Féð verður m.a. notað til að girða af svæðið. Í dag voru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að Háabjalla að eyða virkri sprengju frá því eftir stríð. Það eru ekki bara sprengjur sem eru hættulegar á svæðinu. Í dag eru leifar af girðingu á svæðinu sem í raun er stórhættuleg. Gaddavírsstrengir eru í andlitshæð hjá fullorðnu fólki.Þegar gengið er um svæðið þá horfir fólk frekar niður fyrir sig, enda stórgrýtt að hluta og þarna er einnig drullusvað eftir rigningar. Foreldri sem fór á svæðið þegar rökkva tók í gærkvöldi til að skoða sprengju sem börn voru að leika sér með á svæðinu gekk á gaddavírinn án þess þó að hljóta af því skaða. Myndatökumaður Stöðvar 2 og Víkurfrétta sem var við myndatökur á svæðinu í dag var varaður við gaddavírnum á "elleftu stundu".
Það er vonandi að þeir sem nú hafa tekið við svæðinu til frekari uppbyggingar fjarlægi gaddavírinn hið fyrsta. Svæðið er vinsælt útivistarsvæði og daglega er fólk á ferðinni þarna til að njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar.

Myndin: Gaddavírsstrengir sem eru stórhættulegir fyrir fullorðið fólk sem ekki gætir að sér. Þarna þýðir lítið að horfa niður á tærnar á sér. Hættan er í augnhæð! VF-mynd: Jóhannes Kr. Kristjánsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024