Hættuástand og rýming tilkynnt með mjög afgerandi hætti
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:
Nú gengur yfir gríðarlega öflug skjálftahrina og ekki ólíklegt að hver einasti Grindvíkingur sé nú vakandi enda hreinlega nötrar jörðin stanslaust hérna þessa stundina.
Okkur langar að koma eftirfarandi á framfæri:
Sem stendur hefur björgunarsveitin hvorki verið kölluð út né hafa ekki borist neinar upplýsingar um að einhver hætta sé á ferðum önnur en sú að nú er skjálftahrina í gangi lík þeim sem hafa verið undanfarið.
Komi til þess að eitthvað hættuástand skapist eða til rýmingar komi verður það tilkynnt með mjög afgerandi hætti. Fyrst með sms skilaboðum í alla síma á svæðinu, síðan með mjög áberandi hljóðmerkjum og síðast einfaldlega með banki á dyrnar.
Það er mjög eðlilegt að vera órólegur á meðan svona hrinur ganga yfir. Við viljum minna fólk á að ganga frá lausamunum og passa að taka dót niður úr hillum.
Eins og staðan er er fínt vorveður úti og frídagur hjá flestum á morgun þannig að fólk gæti hæglega farið í stutta gönguferð eða kveikt á góðri mynd til að dreifa huganum á meðan þetta gengur yfir.
Eins og áður erum við á tánum og lofum að láta ykkur vita um leið og einhver hætta er á ferðum.