Hætta samstarfi um listahátíðina Ferska vinda í Suðurnesjabæ
Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur samþykkt samhljóða að endurnýja ekki samning um listahátíðina Ferska vinda. Suðurnesjabær þakkar Ferskum vindum fyrir ánægjulegt samstarf á undanförnum árum og sérstakar þakkir fær Mireya Samper sem hefur verið listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri Ferskra vinda. Þetta kemur fram í afgreiðslu bæjarráðs á dögunum.
Í minnisblaði frá bæjarstjóra segir að alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar hafi verið samstarfsverkefni Suðurnesjabæjar og félagsins Ferskir vindar, þar sem Suðurnesjabær hefur verið aðal bakhjarl hátíðarinnar og gestgjafi. Hátíðin var fyrst haldin árið 2010 og síðasta hátíð, sem lauk í janúar 2023, var sjöunda hátíðin sem haldin var á grundvelli samstarfsins. Listahátíðin Ferskir vindar hefur vakið alþjóðlega og innlenda athygli og samfélagið í sveitarfélaginu hefur notið listrænna áhrifa hátíðarinnar á ýmsan hátt.
Með fyrirsjáanlegum kostnaðarauka og vegna umfangs listahátíðarinnar sér bæjarráð sér ekki fært að halda samstarfinu við Ferska vinda áfram með frekari samningi um næstu hátíð. Bæjarráð samþykkir því samhljóða að endurnýja ekki samning um listahátíðina Ferska vinda.