Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hætta hefur aukist umtalsvert á öllum svæðum
Frá eldstöðvunum. Mynd/Ingibergur Þór Jónasson
Miðvikudagur 20. desember 2023 kl. 10:53

Hætta hefur aukist umtalsvert á öllum svæðum

Breytingar hafa orðið á því hættumatskorti sem Veðurstofa Íslands gaf út í gær. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu rétt í þessu:

Veðurstofan gaf út nýtt hættumatskort í gær byggt á túlkun nýjustu gagna og út frá stöðu virkninnar í eldgosinu við Sundhnúksgíga. Hætta hefur aukist umtalsvert á öllum svæðum sem skilgreind voru á eldra hættumatskorti, svæði 1 – 4. Tvö ný svæði hafa bæst við kortið, svæði 5 – 6. Að öllu óbreyttu gildir þetta kort til fimmtudagsins 28. desember 2023.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir fund aðgerðastjórnar og vettvangsstjórnar nú í morgun er það ákvörðun lögreglustjóra að banna alla umferð og viðveru í Grindavíkurbæ á meðan nýtt hættumatskort er í gildi. Þá verður áfram takmörkuð starfsemi á svæði 1 samkvæmt meðfylgjandi korti. Engin starfsemi er og verður í Bláa lóninu á gildistíma hættumatskortsins.

Lokunarpóstar eru sem fyrr á Grindavíkurvegi, Nesvegi og Suðurstrandarvegi. Viðbragðsaðilar dvelja ekki lengur í Grindavík en þurfa í undantekningartilfellum að sinna verkefnum í bænum.  Lögreglan er með sólarhringsvakt við Grindavík.

Hættumatskort 20. desember 2023. Kortið er í gildi til 28. desember með þeim fyrirvara að staðan breytist ekki. Fólk er beðið að virða og kynna sér þær takmarkanir sem eru í gildi hverju sinni.