Hætta á að Reykjanesbær missi frá sér afburða stjórnendur
Uppsagnir yfirmanna og skipulagsbreytingar hluti af hagræðingu.
Enn einn hitafundurinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Minnihluti sjálfstæðismanna ekki sammála nýjum meirihluta varðandi skipulagsbreytingar og uppsagnir yfirmanna bæjarins:
Uppsagnir yfirmanna og skipulagsbreytingar hluti af hagræðingu
- fimm svið í stað sjö. Starf bæjarritara lagt niður. Ný störf sviðsstjóra auglýst.
Samstaða hjá meiri- og minnihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem mikil áhersla hefur verið lögð áhersla á í endurreisn fjárhagsstöðu bæjarfélagsins var svo sannarlega ekki fyrir hendi á auka bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag þegar tillaga um nýtt skipurit bæjarins var samþykkt. Þá var einnig samþykkt að segja upp framkvæmdastjórum framkvæmdasviða en í skipulagsbreytingum er gert ráð fyrir því að leggja tvö niður. Embætti bæjarritara verður einnig lagt niður. Störf nýrra sviðsstjóra verða auglýst.
Þessar tillögur að nýju stjórnskipulagi sem Capacent hefur unnið fyrir Reykjanesbæ og taka á gildi 1. júní nk. voru kynntar á bæjarráðsfundi sl. fimmtudag. Friðjón Einarsson (S) lagði fram á bæjarstjórnarfundinum sl. þriðjudag tillögu fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar um að segja upp ráðningarsamningum allra framkvæmdastjóra og að sviðsstjórar sem verði ráðnir í nýju skipuriti komi að vinnu við lokafrágang innra skipulags hvers sviðs, niðurröðun og mönnun verkefna og samstarfs á milli sviða. Þeirri vinnu verði lokið 1. júní þegar nýtt skipulag tekur gildi.
Friðjón lagði fram aðra bókun vegna uppsagna framkvæmdastjóranna sem byggir á því sjónarmiði að eitt skuli yfir alla ganga. „Þær veigamiklu breytingar sem verið er að gera á skipuriti sveitarfélagsins gera það að verkum að ákveðin störf eru lögð niður og þeir starfsmenn sem sinnt hafa þeim verkum missa þar með vinnu sína. Í því ljósi og til þess að allir sitji við sama borð er tillaga um uppsagnir allra framkvæmdastjóra fram komin,“ segir m.a. í bókuninni.
Böðvar Jónsson (D) lagði fram breytingatillögu frá sjálfstæðismönnum varðandi skipulagsbreytingarnar, að fagsvið verði fjögur í stað þriggja og við bætist sérstakt atvinnumálasvið. Einnig að stoðsviðin verði þrjú í stað tveggja. „Síðustu ár hefur verið lagður grunnur að fjölda vel launaðra starfa m.a. í Helguvík sem gætu bæði leitt til aukinna tekna fjölda íbúa og um leið aukinnna tekna sveitarfélagsins. Á meðan þeim verkefnum er siglt í höfn teljum við mikilvægt og nauðsynlegt að málaflokkurinn fái sterkara vægi í skipuriti sveitarfélagsins en gert er ráð fyrir í tillögu meirihlutans,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokks.
Sjálfstæðismenn lögðu einnig fram bókun um uppsagnirnar. „Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast eindregið gegn tillögu um uppsögn allra framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og telja að með því séu bæjarfulltrúar meirihlutans að stofna í hættu mikilvægri þekkingu og reynslu starfsmanna sem sumir hafa starfað hjá sveitarfélaginu um áratuga skeið. Með ákvörðuninni er hætta á að Reykjanesbær missi frá sér afburða stjórnendur sem hafa reynst mikil stoð fyrir samfélagið í gegnum tíðina.“ Tvær tillögur sjálfstæðismanna um aðra útfærslu á skipuriti voru felldar 6-4.
Tillaga meirihlutans um nýtt skipurit voru samþykktar með atkvæðum fulltrúa meirihlutans og atkvæði fulltrúa Framsóknar. Tillaga meirihlutans um uppsögn á ráðningarsamningum framkvæmdastjóranna var samþykkt með atkvæðum meirihlutans. Sjálfstæðismenn og Kristinn Jakobsson, Framsóknarflokki greiddu atkvæði gegn þeirri tillögu.
Það er því ljóst að sjö framkvæmdastjórar jafn margra sviða hafa fengið eða eru að fá uppsagnarbréf en þá mun starf bæjarritara einnig verða lagt af. Hjörtur Zakaríasson bæjarritari til 29 ára er að hætta og hans verkefni munu í nýju skipuriti falla undir nýtt stjórnsýslusvið.
Auglýst hafði verið að fundurinn yrði lokaður en hætt var við það á síðustu stundu. Það gerði það að verkum að bæjarfulltrúar sátu einir á fundinum utan eins gests sem lét sjá sig.