Hætt við að stytta opnunartíma heilsugæslunnar
Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að hætta við skerðingu á opnunartíma Heilsugæslustöðvar Grindavíkur um helming eins til stóð að gera frá og með 1. júní nk.
Stöðin átti þá eingöngu að vera opin fyrir hádegi.
Bæjaryfirvöld í Grindavík munu hafa fengið þetta staðfest frá framkvæmdastjóra HSS, samkvæmt því sem bæjarmálavefur Grindavíkur greinir frá. Þá mun hjúkrunarforstjóri heilsuhæslustöðvarinnar í Grindavík einnig hafa fengið þetta staðfest.
Endurskoða á fyrirætlaðan niðurskurð í heild sinni en ljóst að til einhvers niðurskurðar og hagræðingar mun koma, þó ekki eigi að skerða opnunartímann. Þá var búið að skerða starfshlutfall starfsfólks um 50% samkvæmt ákvörðun sem tekin var í höfuðstöðum Heilbrigðisstofununar Suðurnesja en sú ákvörðun verður væntanlega endurskoðuð, segir ennfremur á www.grindavik.is.
Bæjarráð Grindavíkur fjallaði um málið á fundi sínum í síðustu viku þar sem þessi niðurskurður var gagnrýndur harðlega. Í framhaldi af þeim fundi sendi Jóna Kristín Þorvaldsdóttir bæjarstjóri, Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra bréf með þeim skilaboðum að algjörlega óásættanlegt væri að skerða grunnþjónustu heilsugæslunnar í tæplega þrjú þúsund manna jarðarbyggð. Óhætt er að segja að heilbrigðisráðherra hafi brugðist hratt og vel við.
,,Það ber vissulega að fagna því og þakka hve jákvæð viðbrögð komu fljótt og vel frá ráðuneytinu og að það hefur skilað sér í þessu tilfelli að hafa strax samband við ráðherra og hafna þeim vinnubrögðum sem átti að viðhalda," sagði Jóna Kristín í samtali við bæjarmálavefinn.
-----------------------------
Mynd/www.grindavik.is – Frá heilsugæslustöðinni í Grindavík.