Hætt kominn við frækilegt björgunarafrek
Ásmundur Þór Kristmundsson, tvítugur björgunarsveitarmaður úr Björgunarsveitinni Suðurnes, vann gríðarlegt þrekvirki um helgina þegar hann bjargaði tveimur erlendum ferðamönnum úr Krossá. Frönsk hjón höfðu lagt í ána á smájeppa sem flaut eins og korktappi hundruð metra í straumharði ánni uns hann stöðvaðist.
„Ég er ennþá í losti og áttaði mig ekki á því fyrr en eftirá hversu alvarlegar aðstæður voru,“ sagði Ásmundur þegar VF hafði samband við hann í morgun.
Ásmundur Þór var ásamt unnustu sinni að leggja upp í gönguferð í Þórsmörk þegar þau gengu fram á ferðamenn sem voru greinilega í miklu uppnámi. Þau eltu fólkið niður að ánni og sáu þá hvar smájeppinn kom flótandi í straumnum. Hann flaut þar einhver hundruð metra uns hann stöðvaðist.
Ásmundur batt sig í spotta sem hann festi við bíl á árbakkanum. Því næst gaf hann tveimur mönnum fyrirmæli að draga sig upp úr ánni ef honum tækist ekki ætlunarverk sitt að komast að fólkinu sem var bjargarlaust í bílnum. Sterkur straumurinn togaði gríðarlega í Ásmund sem þurft að beita öllu sínu afli til að komast að fólkinu. Honum segist svo frá að þegar hann hafi komið að bílnum hafi maðurinn gripið dauðahaldi í hann þegar hann opnaði hurðina bílstjórameginn þar sem karlinn sat undir stýri en konan í farþegasætinu. Eins og gefur að skilja voru þau bæði skelfingu lostin.
Ásmundur gerði þeim grein fyrir að hann gæti ekki tekið nema annað þeirra í einu og fór af stað með manninn sem gripið hafði dauðahaldi utan um háls hans. Mennirnir í landi toguðu þá eftir ánni en við það færðist Ásmundur á kaf undir manninn sem hélt dauðahaldi um háls hans. Að sögn Ásmundar var hann nærri drukknaður við þetta en komst upp á bakkann algjörlega örmagna.
Þrátt fyrir að vera algjörlega uppgefinn og kaldur eftir ískalda jökulána lagði hann á ný út í hana til að bjarga konunni. Hann lét sig berast með straumnum fram fyrir bílinn og að hurðinni farþegamegin. Ásmundur segir konuna hafa verið nokkuð yfirvegaða. Hún tók taki utan um Ásmund sem hélt utan um mitti konunnar og gaf mönnunum á árbakkanum merki um að draga þau að bakkanum.
Ásmundur segsti hafa eytt því litla þreki sem hann átti eftir í þá ferð. Hann náði að koma konunni upp á bakkann en var þá svo örmagna að hann féll sjálfur í ána. Hann var dreginn upp á bakkann þar sem hann hné meðvitundarlaus niður.
Eins og gefur að skilja var Ásmundur lurkum laminn eftir þessa þrekraun en sagðist hafa jafnað sig ágætlega þegar VF náði tali af honum í morgun.
Meðfylgjandi myndir tókn Særós Sigþórsdóttir, unnusta Ásmundar.
Á efstu myndinni leggur Ásmundur út í straumharða ána. Hér er hann kominn að bílnum.
Hér sést hvernig Ásmundur lendir undir manninum á bólakaf í ánni og heldur um mitti hans.
Ásmundur segir drukknunartilfinninguna hafa verið skelfilega.