Hæstiréttur sýknar Brunavarnir Suðurnesja í máli ekkju
Hæstiréttur Íslands hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjaness þar sem ekkju slökkviliðsmanns hjá Brunavörnum Suðurnesja dæmdar 5,7 milljónir króna í bætur vegna láts manns hennar. Taldi Hæstiréttur Íslands ekkert hafa komið sem benti til þess að Brunavarnir Suðurnesja bæri sök á andlátinu.
Eiginmaður konunnar lést 22. september 2005 eftir hlaup á þolbretti í líkamsræktarstöð. Hann var þá 46 ára gamall og hafði verið slökkviliðsmaður á Suðurnesjum frá 1988. Hann varð varðstjóri 1995 og aðalvarðstjóri 1997.
Eiginmaður konunnar, sem starfaði sem aðalvarðstjóri hjá slökkviliði Brunavarna Suðurnesja, lést eftir hlaup á þolbretti í líkamsræktarstöð. Eiginkona hans og tvö börn kröfðu Brunavarnir Suðurnesja, vinnuveitanda þess látna, um bætur og reistu kröfu sína aðallega á því að Brunavarnir Suðurnesja bæru sök á dauða mannsins en til vara á því að um slys hafi verið að ræða sem Brunavarnir Suðurnesja hafi borið að tryggja hann fyrir.
Eiginmaður konunnar hafði þjáðst af háum blóðþrýstingi og verið ráðlagt af trúnaðarlækni Brunavarna Suðurnesja að taka lyf við því og að leita til hjartalæknis. Hafði Brunavörnum Suðurnesja verið gerð grein fyrir þessu. Maðurinn hafði hins vegar ekki fylgt ráðleggingunum. Talið var að ekkert væri í ljós leitt um eiginleika starfs mannsins, sem gegndi stjórnunarstöðu hjá Brunavörnum Suðurnesja, eða vanrækslu eða gáleysi Brunavarna Suðurnesja varðandi lyfjameðferð mannsins eða líkamlega áreynslu, sem hafi leitt til andláts hans, svo að Brunavarnir Suðurnesja yrðu taldar bera sök á andlátinu. Þá var ekki talið að um slys hafi verið að ræða þar sem dánarorsök mannsins var sjúkdómur. Voru Brunavarnir Suðurnesja því sýknaðar í málinu.
Eins og að framan greinir lést maðurinn eftir hlaup á þolbretti í líkamsræktarstöð og var banamein hans rofnun ósæðar við hjartað með mikilli blæðingu inn í gollurshúsið. Hann var ný orðinn 46 ára.
Dómsorð Hæstaréttar Íslands er að aðaláfrýjandi, Brunavarnir Suðurnesja, sé sýkn af kröfum gagnáfrýjenda, Vilborgar Reynisdóttur, Kristínar Óskar Gísladóttur og Reynis Arnar Gíslasonar. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjendanna Vilborgar Reynisdóttur og Kristínar Óskar Gísladóttur fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 600.000 krónur.
Hér má lesa dóma hæstaréttar og héraðsdóms í heild sinni