Hæstiréttur staðfesti lögbann í nafnamáli hótela í Keflavík
Flugleiðahótelinu óheimilt að nota firmaheitið „Hotel Keflavik“/“Hótel Keflavík“.
Hæstaréttur staðfesti í dag lögbann, sem Sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði 2. sept. 2011, við því að Flugleiðahótel ehf. og Flughótel Keflavíkur ehf., notuðu auðkenni sem innihalda vörumerki og firmaheiti „Hótel Keflavík“. Flugleiðahótel ehf. áfrýjuðu dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 13. júlí 2012 um lögbannið.
Hæstiréttur staðfesti þannig úrskurð Héraðsdóms sem hafði dæmt Hótel Keflavík í hag og er því Flugleiðahótelinu óheimilt að nota auðkenni fyrir hótelið að Hafnargötu 57, Reykjanesbæ sem innihalda vörumerkið og firmaheitið „Hotel Keflavik“/“Hótel Keflavík“.
Héraðsdómur dæmdi Flugleiðahótelinu að greiða Hótel Keflavík ehf., 1.900.000 krónur í málskostnað. Hæstiréttur dæmi þeim svo til að greiða Hótel Keflavík ehf. 800 þús. kr. í málskostnað fyrir Hæstarétti.