Hæsta grenitré á Suðurnesjum dauðvona eftir skemmdarverk
Börkur hefur verið skorinn af stofni á einu hæsta grenitrénu í skógræktinni í Háabjalla í landi Sveitarfélagsins Voga. Um 20 sentimetra hluti hefur verið skorinn úr berkinum allan hringinn en sárið er í um það bil eins og hálfs metra hæð, segir í færslu sem Oktavía Jóhanna Ragnarsdóttir skrifar á fésbókarsíðu Skógfells, skógræktarfélags í Vogum
Skógrækt hófst á Háabjalla 1948 en þar hafa mælst hæstu tré á Suðurnesjum. Oktavía segir að haft var samband við skógfræðing hjá Skógræktarfélagi Íslands en hann taldi lífslíkur trésins afar litlar eða einungis um 5%.
„Þó var ráðist í að flytja börk af nýfelldu tré og líma hann yfir sárið með þá von í brjósti að það muni bjarga lífi þessa öldungs,“ segir í færslunni.
Stjórn og félagsmönnum Skógfells er það mikil ánægja að þeim fari fjölgandi sem njóta útivistar í fagurri náttúru skógarins og nærsvæða hans.
„Öll umgengni hefur verið til fyrirmyndar, við vorum því virkilega sorgmædd að sjá skemmdirnar og létum lögreglu vita,“ skrifar Oktavía Jóhanna Ragnarsdóttir.
Börkur af nýfelldu tré var límdur á stóra grenitréð í von um að hægt verði að bjarga lífi þess.