Hærri gjöld og minni tekjur í Reykjanesbæ
Hvorki verður dregið úr þjónustu né fjárfestingum, segir meirihluti bæjarstjórnar
„Sú fjárhagsáætlun sem nú er verið að leggja fram til fyrri umræðu, sýnir glögglega hversu mikil og neikvæð áhrif kórónuveirufaraldurinn er að hafa á afkomu Reykjanesbæjar,“ segir í bókun meirihluta Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá síðasta bæjarstjórnarfundi. Þá var lögð fram fjárhagsáætlun til fyrri umræðu.
„Fyrir ári síðan var lögð fram áætlun fyrir árið 2021 sem gerði ráð fyrir að tekjur sveitarsjóðs yrðu 17,7 milljarðar en nú er verið að gera ráð fyrir 16 milljarða tekjum. Þetta er lækkun upp á 1,7 milljarð króna sem minnkar verulega það svigrúm sem sveitarfélagið hefur til þess að sinna skyldum sínum og bregðast við þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir.
Þá hafa rekstrarútgjöld frá fyrri áætlun aukist um 1,2 milljarða sem gerir það að verkum að rekstrarniðurstaða A-hluta verður neikvæð sem nemur 2,4 milljörðum en áður hafði verið gert ráð fyrir að afkoman yrði jákvæð um 829 milljónir.
Gert er ráð fyrir að halli samstæðu þ.e. A og B hluta verði 1.888 milljónir en áður hafði verið gert ráð fyrir að jákvæðri afkomu upp á 1.578 milljónir.
Þetta er mikil breyting sem þarna er að eiga sér stað og hægt að bregðast við með ýmsum hætti. Við sem sitjum í meirihluta Reykjanesbæjar teljum eðlilegt að hvorki sé dregið úr þjónustu né fjárfestingum við þessar aðstæður. Slíkt myndi bara auka á vandann sem þó er ærinn fyrir.
Mestu máli skiptir að haldið sé þétt utan um þá sem þurfa á þjónustu opinberra aðila að halda. Það er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að sjá til þess.
Hins vegar vekja fregnir af væntanlegum bóluefnum vonir um að fyrr en varir verði séð fyrir endann á þessu ástandi og hægt verði að lifa eðlilegu lífi á nýjan leik.
Við munum þá geta komist fljótt og vel út úr þessum aðstæðum og lagt fram jákvæðari áætlanir en nú er verið að gera,“ segir í bókun meirihlutans.
Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Styrmir Gauti Fjeldsted (S).