Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hælisleitendur fá vasapeninga
Föstudagur 27. ágúst 2004 kl. 09:14

Hælisleitendur fá vasapeninga

Auralausir hælisleitendur sem lengi eru í umsjá Reykjanesbæjar meðan mál þeirra eru til skoðunar hjá Útlendingastofnun fá eftirleiðis greidda vasapeninga meðan á dvöl þeirra stendur. Slíkar greiðslur voru aflagðar um áramót þegar bærinn tók við umsjá hælisleitenda frá Rauða krossi Íslands. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir grunnregluna þó vera að ekki séu greiddir vasapeningar. "Við tryggjum fólki góða gistiaðstöðu, góða þjónustu og gott fæði. Ef hins vegar hælisleitendur eru auralausir og dvelja hér til lengri tíma, þá viljum við geta veitt þeim fjárhagslega aðstoð fyrir nauðsynjum," sagði hann.
Árni sagði reynsluna af umsjá hælisleitenda í meginatriðum hafa verið farsæla og auðvelt að lagfæra smáhnökra sem upp kynnu að hafa komið. Hann tiltók að sérstakir starfsmenn bæjarins færu með umsjá hælisleitendanna og nytu við það bakstuðnings félagsþjónustu bæjarins.
"Þjónustan er mjög fagleg og fleiri sem eru til taks en verið hefur áður. Ég er því mjög sáttur við þjónustuna sem við erum að veita og veit að okkar fólk stendur sig með stakri prýði," sagði Árni Sigfússon bæjarstjóri í Fréttablaðinu.

Mynd: Frá undirritun samnings um hælisleitendur í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024