Hækkuðu laun kjörinna fulltrúa
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að föst laun bæjarfulltrúa og bæjarráðsmanna hækki miðað við launavísitölu frá ársbyrjun 2013 í samræmi við það rammasamkomulag sem í gildi er á almennum vinnumarkaði, að frádregnum þeim hækkunum sem orðið hafa á tímabilinu og nemur sú hækkun 17,48%.
Í fundargerð bæjarráðs segir að til þess að bæta kjör þeirra sem sitja í nefndum á vegum sveitarfélagsins hækki nefndarlaun fyrir hvern setinn fund með hliðsjón af hækkun kjararáðs. Kristinn Þór Jakobsson, fulltrúi Framsóknarflokks, lagði fram þá tillögu að áheyrnarfulltrúar fái föst laun eins og bæjarráðsmenn. Meirihluti bæjarráðs greiddi atkvæði gegn tillögunni en fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.