Hækka styrk til Ferskra vinda um hálfa milljón
Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs hefur samþykkt með atkvæðum D- og L-lista að hækka styrk til listaverkefnisins Ferskra vinda um hálfa milljón króna. Í minnisblaði bæjarstjóra, sem lagt var fyrir bæjarráð Garðs, kemur fram að Ferskir vindar hafi í alla staði gengið mjög vel.
Verkefnið vakti mikla athygli og fékk umfjöllun í fjölmiðlum innanlands sem erlendis. Áform eru um að sýning á listaverkum standi uppi að Sunnubraut 4 allt til loka júlí.
Hækkunin á styrknum verður tekin af liðnum „styrkir til menningarmála“ en frá upphæðinni dregst fjárhæð sem sveitarfélagið hefur þegar fjármagnað að hluta. Fulltrúi N-lista sat hjá við afgreiðslu á hærri styrk.