Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hægt að stórauka fiskvinnslu með litlum tilkostnaði
Fimmtudagur 4. nóvember 2010 kl. 10:23

Hægt að stórauka fiskvinnslu með litlum tilkostnaði


Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ætla að fara þess á leit við sjávarútvegsráðherra að bæjarfélagið fái úthlutað byggðakvóta og hann skoði leiðir til þess að vinna með heimamönnum að frekari uppbyggingu sjávarútvegs á svæðinu. Landaður bolfiskafli í Keflavík og Njarðvík hefur dregist saman úr 57 þúsund tonnum niður í 5 þúsund tonn frá því um miðja síðustu öld þegar Keflavík var ein stærsta löndunarhöfn landsins.

Þetta kom fram í máli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudaginn. Árni ræddi stöðu sjávarútvegs á svæðinu og rakti í stuttu máli þróun hans síðustu áratugina.
Árið 1967 var yfir 48 þúsund tonnum af  bolfiski landað árlega í Keflavík og Njarðvík.  Tíu árum síðar hafði aflinn aukist í 57 þúsund tonn. Árið 1987 hafði bolfiskaflinn dregist saman um helming og var kominn niður í 26 þúsund tonn. Þá fór að halla verulega undan fæti er togarar Hraðfrystihúss Keflavíkur voru seldir burtu. Árið 1997 var bolfiskaflinn kominn niður í 14 þúsund tonn og árið 2007 hafði hann hrapað niður 5 þúsund tonn, samkvæmt því sem fram kom í máli Árna.

Árni sagði fulla ástæðu til að velta því upp hvort ekki væru hægt að snúa við blaðinu í sjávarútvegi á svæðinu og nefndi m.a. byggðakvóta í því sambandi. Taldi Árni það skjóta skökku við að bæjarfélög með enga höfn fengju byggðakvóta við úthlutun.
„Við leyfðum okkur fyrir nokkru síðan að sækja um byggðakvóta. Þá var okkur tilkynnt að við værum ekki einu sinni á byggðakortinu. Þess vegna þýddi ekkert fyrir okkur að sækja um byggðakvóta. Við gerðum það nú samt en þá voru viðbrögðin þau að þetta væri ekki svaravert. Það barst aldrei svar til baka. Þetta er auðvitað eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við,“ sagði Árni.

Árni sagði það athyglisvert að þrátt fyrir lítinn afla væri mikill kraftur í fiskvinnslunni í bæjarfélaginu en 15 fiskvinnslufyrirtæki væru starfandi í bænum. Í kringum þessi fyrirtæki væru vel á annað hundruð störf. Um væri að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki sem mörg hver væru að nýta gömlu fiskvinnsluhúsin. Þarna lægju fjárfestingar sem hægt væri að auka við og nýta betur. Með tiltölulega litlum tilkostnaði væri hægt að stórauka fiskvinnslu í bæjarfélaginu.
Árni nefndi að í bæjarfélaginu væri skráðir 56 bátar undir 20 brúttótonnum og 42 bátar yfir, alls 90 bátar. Á þetta yrði bent í væntanlegu erindi til sjávarútvegsráðherra þar sem þess yrði óskað að hann ynni með heimamömmun að frekari uppbyggingu sjávarútvegs á svæðinu og skoðaði leiðir til að styðja við hann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024