Hægt að rækta á Suðurnesjum
Auður I. Ottesen, garðyrkjufræðingur, er mörgum Suðurnesjamönnum að góðu kunn, fyrir rannsóknir sínar á garðrækt við sjávarsíðuna. Hún starfar nú á Mógilsá, rannsóknarstöð skógræktar en komst fyrst í kynni við garðrækt á Suðurnesjum þegar hún vann hjá Hallgrími Egilssyni á Gróðrarstöðinni Grímsstöðum í Hveragerði, en hann var með útibú í Keflavík.Kom á óvartAuður segir að garðaeigendur við sjávarsíðuna hafi borið sig misvel, þegar þeir komu til Hallgríms. „Hjá sumum lifði ekkert en hjá öðrum sem ræktuðu við sömu skilyrði, þreifst allt þokkalega. Árið 1988 kannaði ég ástæðuna fyrir misgóðu gengi garðaeigenda við sjávarsíðuna og þar sem lítið var til af heimildum varð ég að búa þær til og gerði úttekt á garðrækt og sögu bæjanna Stokkseyri, Þorlákshöfn, Grindavík og Keflavík. Ég skilaði af mér ritgerð sem bar m.a. lista yfir þær plöntur sem þá þrifust á þessum stöðum. Listinn var stuttur á Stokkseyri en töluvert langur í Keflavík. Þessir listar vöktu eftirtekt því sambærilegt hafði ekki verið gert áður. Ég hélt í kjölfarið nokkra fyrirlestra með Kristni Þorsteinssyni, garðyrkjumanni, og skrifaði um efnið í garðyrkjurit.“Garðar á SuðurnesjumÞrautreyndir garðaeigendur búa yfir dýrmætum upplýsingum sem mikilvægt er að safna saman og miðla til annarra. Vorið 1998 var Auði falið að gera úttekt á reynslu garðaeigenda og sögu garðræktar á Suðurnesjum, fyrir samtökin „Gróður fyrir fólk“ og Mógilsá - rannsóknarstöð skógræktar. „Rannsóknin var kostuð af umhverfisdeild bandaríska hersins og var hluti af viðamikilli rannsókn þessara aðila. Þarna gafst mér tækifæri til að bera saman þróunina frá því 1989 og ég kynnti mér garðræktarsögu Suðurnesja enn betur en áður og skoðaði garða í öllum bæjum á Suðurnesjum.“Klónatilraunir á víði og birkiAuður hefur rannsakað fleira en jurtategundir í görðum á Suðurnesjum en í sumarbyrjun 1998 hófst klónatilraun af víði og birki á vegum rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá. „Í víðistilrauninni eru víðitegundir sem nú eru í notkun á Íslandi, auk fjölmargra nýrra tegunda frá Alaska, alls 118 klónar. Einn tilraunareiturinn er fyrir utan Sandgerði og hinir innan girðingar hjá hernum. Birkiklónarnir eru 52 og eru þeir frá ýmsum stöðum af landinu. Einnig var gróðursett í samanburðartilraun greni, fura og birki. Þar er verið að athuga hvernig plöntur spjara sig úr mismunandi ræktunarbökkum, með mismunandi áburðarskammta og einnig er athuguð beinsáning með mismunandi aðferðum“, segir Auður en gaman verður að fylgjast með hver niðurstaða þessara tilrauna verður.Handbók um ræktuntrjágróðursAuður og eiginmaður hennar, Páll Pétursson, gáfu út rit um trjárækt á Suðurnesjum í fyrra sem var dreift í öll hús á Suðurnesjum. Í ritinu eru viðtöl við reynda garðaeigendur og sérfræðigreinar um ræktun.„Ég var búin að viða að mér miklu efni og vildi allt gera til þess að það kæmi ræktendum á Suðurnesjum að gagni. Ég vildi taka þessa áhættu á útgáfu frekar en að skila af mér skýrslu sem myndi kannski enda upp í hillu. Ég fékk til liðs við mig greinahöfunda, allt sérfræðinga, á sínu sviði í skógrækt og umhverfismálum. Ég skrifaði sjálf um ræktun á Suðurnesjum og tók viðtöl við reynda garðaeigendur og setti saman lista með trjám og runnum eftir þolni þeirra“, segir Auður.Að sögn Auðar var blaðinu vel tekið og þau hjónin ákváðu þá að gefa út gagnlegt og aðlaðandi garðyrkjurit og í júní kom annað blaðið út. „Við förum okkur hægt í byrjun en ráðgerum að gefa út vor-, sumar- og jólablað á næsta ári“, segir Auður.Eplatré þrífast á nesinuEr eitthvað sem hefur komið þér á óvart í skoðunarferðum þínum?„Í Garði vex eplatré upp við húsvegg fyrir algera tilviljun. Það er fátítt að ávaxtatré vaxi í görðum á Íslandi en þau eru víða ræktuð í köldum garðskálum eða plastgróðurhúsum. Ég hef þó fregnað af eplatrjám í skýldum görðum á Akureyri, Hvolsvelli, Múlakoti og í Reykjavík. Því varð ég undrandi að sjá torkennilegt tré upp við hús í Garði, og þegar ég gætti betur að þá var þarna eplatré. Ég var þó vantrúuð og bankaði til þess að forvitnast um tréð. Húsfreyjan sagði mér að þetta tré hefði vaxið þarna síðustu árin og aldrei kalið, né blómstrað og henni þætti ekki ólíklegt að það væri eplatré því það var fyrir utan herbergi sonar hennar og hann hafi átt það til að spýta út um gluggan eplasteinum og líklega hafi þetta tré vaxið upp af einum steininum. Þarna óx eplatré upp fyrir algera tilviljun og það er nokkuð víst þarna hefði enginn ráðlagt að gróðursetja eplatré. En maður getur lært margt af tilviljunum og til að mynda þá voru kirkjugarðar oft tilraunastaðir fyrir gróður því aðstandendur voru oft ekkert að velta fyrir sér hvort tréð eða runninn sem gróðursettur var á leiði þrifist eða ekki og þannig hefur bæst í tegundarflóruna. Í dag er úrvalið mun fjölskrúðugra en á árum áður, og á Suðurnesjum eru tveir sölustaðir garðplantna og eigendur þeirra fást við þær aðstæður sem garðeigendur glíma við“, segir Auður og bætir við að lerki þrífist einnig víða með ágætum á Suðurnesjum. „Það var einróma álit fræðimanna árið 1989 er ég leitaði mér upplýsinga í ritgerðina, að lerki þrifist ekki við sjávarsíðuna. Af þessu tvennu er ég hætt að dæma plöntur óræktanlegar fyrr en það er reynt.“