Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 5. desember 2000 kl. 10:23

Hægt að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautarinnar um mitt ár 2003

„Um mitt árið 2003 ættum við að geta byrjað að aka á tvöfaldri Reykjanesbraut“, segir Kristján Pálsson, þingmaður.
Kristján sagði í sjónvarpsfréttum í fyrradag að lítið mál væri að flýta framkvæmdum og ljúka tvöfölduninni á einu ári en Árni Johnsen, formaður samgöngunefndar segir að Kristján sé að gefa fólki falsvonir og að ljúka framvkæmdum á einu ári sé útilokað.
„Það er ekkert vandamál að ljúka framkvæmdum á einu ári. Ég hef fengið það staðfest hjá Íslenskum aðalverktökum sem eru einnig tilbúnir að útvega fjármagn til verksins. Þetta snýst um vilja stjórnvalda og Alþingis að hægt sé að ljúka verkinu með vegaáætlun fyrir árin 2003 til 2006. Vinna við umhverfismat stendur nú yfir og ætti að ljúka um mitt næsta ár. Hönnunar- og útboðsvinna gæti tekið annað ár. Þá ætti að vera hægt að hefja framkvæmdir árið 2002 og þannig gæti þeim lokið um mitt árið 2003“, sagði Kristján Pálsson í samtali við Víkurfréttir.
Á fundi samgönguráðherra í Keflavík í síðustu viku útilokaði hann ekki þann möguleika, að hægt væri að flýta verkinu með því að ljúka vegaáætlun fyrr en ætlað er með lántöku verktaka til að fjármagna vegaáætlunina og fá það greitt síðar eins og fordæmi er um í hafnaáætlunum.
Mikil umræða er nú meðal fólks á Suðurnesjum í ljósi hins hörmulega banaslyss í síðustu viku þegar þrír Suðurnesjamenn létust í bílslysi tvegga bíla rétt neðan við Strandarhreiði. Hávær umræða er um að mótmæla á einhvern hátt verði framkvæmdum ekki flýtt, t.d. með því að loka brautinni óvænt. Stofnun hollvinasamtaka hefur t.d. komið upp á borðið.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024