Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hæfileikamikið fólk að hætta störfum hjá bænum
Fimmtudagur 12. mars 2015 kl. 16:29

Hæfileikamikið fólk að hætta störfum hjá bænum

Gengið var frá ráðningum framkvæmdastjóra og hafnarstjóra Reykjanesbæjar í bæjarráði Reykjanesbæar í morgun. Fulltrúar Reykjanesbæjar í bæjarráði, þeir Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson, lögðu fram bókun þar sem segir að þeir vonist til að bæjaryfirvöldum takist sem fyrst þeim kraftmikla anda og góða starfi sem einkennt hefur bæjarskrifstofur og verkefni sviða bæjarins. Þá segir jafnframt: „Sú ákvörðun að segja upp samningum við alla starfsmenn á bæjarskrifstofum og þar á meðal við alla framkvæmdastjóra sviða hefur leitt til þess að reynslu- og hæfileikamikið fólk er að hætta störfum hjá bænum“.

Bókunin er svohljóðandi:
„Sjálfstæðismenn samþykkja framlagðar tillögur um ráðningar stjórnenda sviða Reykjanesbæjar.
Við vonum að þeim takist að ná sem fyrst þeim kraftmikla anda og góða starfi sem einkennt hefur bæjarskrifstofur og verkefni sviða bæjarins. Við munum styðja stjórendur til þess.
Um leið þökkum við þeim fjölmörgu starfsmönnum sem eru að hætta störfum fyrir þeirra frábæra framlag undanfarin ár.

Sú ákvörðun að segja upp samningum við alla starfsmenn á bæjarskrifstofum og þar á meðal við alla framkvæmdastjóra sviða hefur leitt til þess að reynslu- og hæfileikamikið fólk er að hætta störfum hjá bænum líkt og sjálfstæðismenn höfðu varað við. Þetta hefur haft áhrif á getu sveitarfélagsins til að halda uppi vandaðri þjónustu og ná margvíslegum þjónustumarkmiðum. Fullyrða má að það hefði ekki  gerst hefði samkomulagsleið verið farin til að ná niður launa- og rekstrarakostnaði. Við hörmum þetta ekki síst vegna þess að sparnaðurinn, sem þessar aðgerðir áttu að hafa í för með sér, reynist nánast enginn“.


Á fundinum í morgun var ennfremur tekin fyrir tillaga þeirra Árna og Böðvars um endurskoðun á fyrri ákvörðunum vegna launamála starfsmanna.

„Tillagan var lögð fram í ljósi þess að u.þ.b. þriðjungur starfsmanna ráðhússins, að bókasafninu frátöldu, hefur nú þegar hætt eða mun hætta störfum á næstu vikum. Sumir hætta vegna aldurs en flestir vegna óánægju með breytingar á launakjörum. Við teljum afar misráðið að missa reynslumikið og gott starfsfólk með svo vanhugsuðum aðgerðum enda hefur komið í ljós að nýr meirihluti leitar nú ýmissa leiða til þess að semja við sumt starfsfólk um hærri laun en bara grunntaxta, í þeim tilgangi að fá einhverja til vinnu,“ sagði Böðvar í samtali við Víkurfréttir.

Tillagan var svohljóðandi:
„Í ljósi fjölmargra uppsagna og brotthvarfs starfsfólks og ennfremur lítils fjárhagslegs ávinnings fyrir bæjarsjóð leggja undirritaðir til að fyrri ákvarðanir um uppsögn á yfirvinnu og bifreiðastyrkjum verði teknar til endurskoðunar“. Tillagan var felld með þremur atkvæðum Friðjóns Einarssonar, Guðbrands Einarssonar og Gunnars Þórarinssonar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024