HÆFARI UMSÆKJANDI
Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að utanríkisráðherra hafi brotið jafnréttislög þegar hann skipaði Jóhann R. Benediktsson í embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli í mars árið 1999. Sjö umsækjendur voru um starfið, sex karlar og ein kona. Varnarmálaskrifstofa ráðuneytisins yfirfór umsóknirnar með tilliti til hæfni umsækjenda. Enginn umsækjenda var kallaður til viðtal þar sem allir umsækjendur voru taldir uppfylla skilyrði sem sett voru og var málið lagt fyrir utanríkisráðherra til ákvörðunar. Ráðherra skipaði Jóhann R. Benediktsson í embættið 19. mars sl. og kærði konan þá ákvörðun til kærunefndar Jafnréttisráðs. Það er álit kærunefndarinnar að á grundvelli hæfnisskilyrða og þeirra þátta annarra sem ráðuneytið lagði til grundvallar skipun í stöðuna, að kærandi teljist a.m.k. jafn hæf þeim sem skipaður var til að gegna stöðu sýslumanns á Keflavíkurflugvelli. Því er það álit kærunefndar að utanríkisráðherra hafi við skipun í embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, sbr. 1. gr. 3. gr. og 5. gr. sömu laga.Beinir nefndin þeim tilmælum til utanríkisráðherra að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi sættir sig við. Þetta kemur fram á mbl.is