Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Háðsglósur um Reykjanesbæ hjá Iceland Express
Mánudagur 21. júlí 2008 kl. 16:44

Háðsglósur um Reykjanesbæ hjá Iceland Express



Styrmir Barkarson er einn þeirra sem er annt um bæinn sinn og fylgist spenntur með því hvað skrifað er um Keflavík eða Reykjanesbæ í blöðum og bæklingum á ferðum sínum um heiminn. Styrmir er ekki ánægður með Iceland Express og meðferð þeirra á Keflavík í ritinu „Express Yourself“ og dreift er til farþega um borð í flugvélum Iceland Express.


Í pistil sem Styrmir ritar m.a. á bloggi Víkurfrétta fer hann ekki fögrum orðum um aðbúnaðinn um borð í þotu Iceland Express né fær maturinn um borð háa einkunn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svo segir Styrmir: „Vitandi hve mikið bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ er í mun að gera bæjarfélagið að aðlaðandi áfangastað fyrir ferðamenn fletti ég bæklingnum í leit að fögrum orðum um bæinn minn. Ég fann texta um Eyrarbakka, Akureyri, Egilsstaði og svolítið um Reykjanesskagann en það var ekki fyrr en ég las pistil um viðkomustaði á hringferð um landið að leitin bar árangur. Þar skrifaði rembingslegur textahöfundur um Reykjavík, Borgarnes, Akureyri, Egilsstaði, Höfn, Vík, og Keflavík og reyndi að vera óskaplega fyndinn með því að gefa bæjunum viðurnefni og koma með heimsborgaralegar háðsglósur sem öllum finnst líklega lummulegar nema honum sjálfum. Akureyri var kölluð borg táranna, Reykjavík borg óttans og svo var það minn elskulegi heimabær:


Keflavík - borg flóttans. Fólksfjöldi: Fer hratt minnkandi?Aðalástæða þess að flestir stoppa í Keflavík er flugvöllurinn, og mögulega sem hliðarstopp með Bláa Lóninu. Samt sem áður í búa í þessu fiskiþorpi einarðir íbúar með þolgóðar sálir sem varpa glaðir frá sér stórborgarfjötrunum fyrir „sveitaljóma“ Keflavíkur.


Er þetta í alvörunni það sem Iceland Express hefur að segja um Keflavík og Reykjanesbæ? Hver í fjandanum skrifaði þetta eiginlega?


Svona kynningarstarfsemi er ljótur leikur við Reykjanesbæ og helst ætti flugfélagið að skammast sín og gefa út nýjan bækling þar sem textahöfundur hefur fyrir því að kynna sér það sem hann skrifar um“.